Upplifun af skapandi iðju

Upplifun kvenna af skapandi iðju sem íhlutun iðjuþjálfa í félags- og tómstundahóp hjá geðheilsuteymi Reykjalundar.
Ábyrgðarmaður: Jórunn Edda Óskarsdóttir sálfræðingur á Reykjalundi

Markmið rannsóknarinnar er að dýpka þekkingu og skilning á því hvaða upplifun konur hafa af skapandi iðju sem íhlutun iðjuþjálfa í félags- og tómstundahóp hjá geðheilsuteymi Reykjalundar. Skilyrði til þátttöku í rannsókninni er að hafa í a.m.k. 12 skipti tekið þátt í félags- og tómstundahóp. Einnig þurfa þátttakendur að vera á aldrinum 30-60 ára, búa á höfuðborgarsvæðinu og vera færir um að veita upplýst samþykki fyrir þátttöku. Þá þurfa þátttakendur að geta lesið, skilið og tjáð sig á íslensku.

Rannsóknin verður eigindleg og hálfopin viðtöl tekin við þátttakendur rannsóknarinnar. Þátttakendur rannsóknarinnar verða 8-12 og stefnt að því að taka tvö viðtöl við hvern þátttakanda, að lágmarki 15 viðtöl. Úrtak rannsóknarinnar er tilgangsúrtak og verður þeim sem uppfylla þátttökuskilyrði boðið að taka þátt í rannsókninni við lok þátttöku í félags- og tómstundahópi. Fyrra viðtal verður tekið 2-4 vikum eftir að þátttakendur rannsóknarinnar hafa lokið þátttöku í félags- og tómstundahópi á Reykjalundi. Síðara viðtalið verður tekið um 2 mánuðum eftir fyrra viðtal. Í viðtölum verður leitast við að öðlast skilning á upplifun þátttakenda af því að stunda skapandi iðju í félags- og tómstundahóp hjá iðjuþjálfum í geðheilsuteymi Reykjalundar. Þar verður m.a. hugað að líðan þátttakenda í hópnum, samskiptum og slökun við iðju. Eftir fyrra viðtal mun rannsakandi, Steinunn Björnsd. Bjarnarson smíða greiningarlíkan fyrir hvern þátttakanda. Í seinna viðtali mun rannsakandi fá staðfestingu á hverju einstaklingsgreiningarlíkani með þátttakendum. Þá mun einnig gefast færi á að skoða upplifun þátttakenda ítarlegar og spyrja spurninga, t.d. hvort einhverjar breytingar hafi orðið á ástundun skapandi iðju frá fyrra viðtali.

Einnig munu rannsakendur safna gögnum úr stundaskrárkerfi Reykjalundar til þess að afla upplýsinga um fjölda einstaklinga sem taka þátt í félags- og tómstundahóp á 12 mánaða tímabili, hversu oft þeir mættu að meðaltali og heildar fjölda mætinga.

Ekki hefur áður verið gerð rannsókn á upplifun einstaklinga í félags- og tómstundahóp en í hópnum er skapandi iðja notuð til þess að vinna að ólíkum markmiðum skjólstæðinga. Innlendum og erlendum heimildum um efnið verður safnað og niðurstöður rannsóknarinnar bornar saman við þær heimildir. Rannsakendur vonast til þess að geta nýtt niðurstöður rannsóknarinnar til þess að efla þekkingu og skilning á því að nota skapandi iðju í hópastarfi í endurhæfingu í geðheilsuteymi.

Upphaf rannsóknar: 2023

Leyfi Vísindasiðanefndar: VSNb2022120019/03.01