Sjónhimna Parkinsonsjúklinga

Greining lífmerkja í taugavef sjónhimnunnar hjá fólki með parkinsonsveiki með myndgreiningu og raflífeðlisfræðilegum mælingum.
Ábyrgðarmaður: Dr. Þórunn Scheving Elíasdóttir, dósent við Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands
Samstarfsaðili á Reykjalundi: Dr. Sóley Guðrún Þráinsdóttir yfirlæknir tauga- og hæfingarteymis.

Sneiðmyndarannsóknir (OCT) og raflífeðlisfræðilegar mælingar hjá fólki með parkinsonsveiki hafa sýnt rýrnun í sjónhimnuvef og minnkaða svörun á sjónhimnuriti (PERG) auk breytinga á sveifluvídd sjónhrifssvarana (VEP). Mælingar á súrefnismettun í sjónhimnuæðum sýna að meinafræðilegar breytingar í heila geti komið fram sem breytingar á efnskiptum í sjónhimnu fólks.

Markmið rannsóknarinnar er að meta gagnsemi sjónhimnu-súrefnismælinga við greiningu lífmerkja í sjónhimnu fólks með parkinsonsveiki. Unnið verður með úrlestur sjónhimnu-súrefnismettunar og æðavíddar sjónhimnuæða og niðurstöðurnar bornar saman við segulómun (MRI) af heila úr sjúkraskrá; þykkt miðgrófar (macula) og taugavef umhverfis sjóntaug; raflífeðlisfræðilega svörun í sjónhimnuvef og sjónberki við sjónáreiti og við súrefnismettun og æðavídd í sjónhimnuæðum hjá heilbrigðum.

Leitað verður samþykkis 60-80 einstaklinga með parkinsonsveiki í gegnum göngudeild Landspítalans og á Reykjalundi.

Ekki hefur áður verði leitað lífmerkja um parkinsonsveiki í sjónhimnuæðum. Jákvæð niðurstaða gæti reynst mikilvægur liður fyrir snemmbúna greiningu og eftirfylgni með þróun sjúkdómsins hjá fólki með parkinsonveiki.

Upphaf rannsóknar: 2022