Árangur hjartaendurhæfingar

Árangur hjartaendurhæfingar á Reykjalundi á árabilinu 1990-2019. Afturskyggn rannsókn.
Ábyrgðarmaður: Dr. Marta Guðjónsdóttir rannsóknarstjóri Reykjalundi og dósent Læknadeild Háskóla Íslands.

Tilgangur rannsóknarinnar er þríþættur: 1) Að meta þoláhrif hjartaendurhæfingar á Reykjalundi á 30 ára tímabili, frá 1990-2019.2) Að kanna hvort samsetning sjúklingahópsins sem kemur í hjartaendurhæfingu á Reykjalundi hafi breyst á tímabilinu með tilliti til aldurs, kyns, holdafars, þols og fleiri þátta. 3) Að meta hvort þeir sem bæta þol sitt minnst eigi eitthvað sameiginlegt. Markmiðið með rannsókninni er að meta hvort endurhæfingin skili sambærilegum árangri og sambærileg meðferð annars staðar og hvort finna megi undirhóp sem þurfi frekari stuðning. Safnað verður gögnum þeirra sem hafa lokið við hjartaendurhæfingu á tímabilinu og tekið hámarksþolpróf bæði við upphaf og lok meðferðar. Undanskildir eru þeir sem hafa fengið hafa krabbamein og meðferð við því. Ekki er alveg ljóst við upphaf rannsóknar hversu margir uppfylla þessi skilyrði en gera má ráð að það verði ríflega 6000 manns. Vísindalegt gildi þessarar rannsóknar felst fyrst og fremst í þrennu. 1) Grunnurinn í þolþjálfun hjartasjúklinga hefur verið óbreyttur á tímabilinu og allan tímann hefur alþjóðlegum leiðbeiningum verið fylgt. 2) Þolprófin hafa sömuleiðis verið gerð með sama hætti allan tímann: Stigvaxandi hámarksþolpróf á hjóli með 12 leiðslu hjartarafriti og blóðþrýstingsmælingum, samkvæmt alþjóðlegum leiðbeiningum. Niðurstaða þeirra er því sambærileg 1990 og 2019. Í þriðja lagi gerir umfang þessara stöðluðu gagna kleift að kryfja þau nokkuð vel til mergjar, m.a. til að finna undirhópa sem skera sig úr.

Upphaf rannsóknar: 2021