Starfræn taugaeinkenni

Rannsókn á einstaklingum með starfræn taugaeinkenni: Klínísk mynd, árangur endurhæfingar og horfur.
Ábyrgðarmaður: Inga Hrefna Jónsdóttir forstöðusálfræðingur

Tilgangur/markmið: Meginmarkmið þessarar rannsóknar er að bæta þekkingu á starfrænum taugaeinkennum, sjúkdómsgangi, meta hvað einkennir þennan sjúklingahóp og árangur endurhæfingar.
Þátttakendur: Einstaklingar á aldrinum 18-67 ára sem koma til endurhæfingar á taugasvið Reykjalundar vegna starfrænna taugaeinkenna frá 1. október 2014 (eða þegar tilskilin leyfi liggja fyrir) til 1. október 2017 eða þar til fjöldi er orðinn a.m.k. 30 manns.
Framkvæmd: Safnað verður saman upplýsingum er varða félagslega þætti, einkenni, veikindi, áföll og lagðir fyrir þá prófanir og spurningalistar sem meta andlega líðan, líkamlega færni, vitræna getu og virkni. Þessar upplýsingar verða skráðar við komu á Reykjalund, við útskrift að lokinni endurhæfingu og í eftirfylgd 6 mánuðum og 1 ári eftir útskrift. Þátttakendur munu fá hefðbundna þverfaglega endurhæfingu á Reykjalundi sem miðast við einkenni og færni. Sú endurhæfing er einstaklingsmiðuð og fer eftir þörfum hvers og eins. Að lokinni endurhæfingu á Reykjalundi er reiknað með eftirfylgd eftir þörfum og a.m.k. 6 mánuðum og 12 mánuðum eftir útskrift.
Vísindalegt gildi: Rannsóknin gæti leitt til betri þekkingar á eðli starfrænna taugaeinkenna, þróun þeirra og afdrifum einstaklinga með starfræn einkenni að lokinni endurhæfingu. Hún gæti þannig leitt til bættrar meðferðar og markvissari endurhæfingar.