Lífsgæði og hjartasjúkdómar

Mat á heilsutengdum lífsgæðum einstaklinga með hjartasjúkdóma: Próffræðilegir eiginleikar MacNew Heart Disease Health-related Quality of Life Questionnaire (MacNew) og Brief Illness Perception Questionnaire (Brief IPQ)
Ábyrgðarmaður:  Inga Hrefna Jónsdóttir forstöðusálfræðingur

Markmið endurhæfingar er meðal annars að auka heilsutengd lífsgæði einstaklingsins. Þörf er á víðtækara mati á heilsutengdum lífsgæðum fólks með hjartasjúkdóma. Í endurhæfingu skiptir upplifun sjúklinga af veikindum sínum máli, sem getur haft áhrif á hegðun og þar með árangur meðferðar. Skortur er á mælitækjum á íslensku sem meta árangur endurhæfingar á þverfaglegan hátt þar sem beitt er sál-, líkamlegum- og félagslegum (biopsychosocial) aðferðum.

Markmið rannsóknarinnar er að gera áreiðanleika- og réttmætisathugun á íslenskri þýðingu kvarðanna MacNew Heart Disease Health-related Quality of Life Questionnaire (MacNew) og Brief Illness Perception Questionnaire (Brief IPQ). Próffræðilegir eiginleikar kvarðanna verða skoðaðir og meðaltöl skoðuð fyrir og eftir endurhæfingu.

Þátttakendur verða valdir úr þægindaúrtaki; 150 einstaklingar sem koma í endurhæfingu á hjartasvið Reykjalundar og á Endurhæfingarstöð hjarta- og lungnasjúklinga í Reykjavík (HL-stöð) frá 1. janúar 2017 (eða þegar samþykki Vísindasiðanefndar liggur fyrir) og lýkur þegar 150 þátttakendur hafa fengist, líklega í janúar 2019.

Lagðir verða fyrir spurningalistar sem meta heilsutengd lífsgæði (MacNew og SF-36), upplifun á veikindum (Brief IPQ) og andlega líðan (DASS) við komu á Reykjalund og HL stöðina og að lokinni þverfaglegri einstaklingsmiðaðri hjartaendurhæfingu. En einnig aftur innan tveggja vikna eftir útskrift af Reykjalundi fyrir 30 fyrstu þátttakendurna til að meta endurprófunaráreiðanleika.