Núvitund

Árangur eftirfylgdar hugrænnar atferlismeðferðar sem byggð er á núvitund

Ábyrgðarmaður:  Inga Hrefna Jónsdóttir forstöðusálfræðingur.

Í rannsókninni verður skoðaður árangur eftirfylgdar þar sem notaðar eru aðferðir hugrænnar atferlismeðferðar (HAM) ásamt núvitund (mindfulness). Tilgangurinn er að bæta eftirfylgd og styðja við þennan sjúklingahóp sem hefur farið í gegnum HAM í endurhæfingu á Reykjalundi. Í þeirri meðferð sem er 12 tímar, tvisvar í viku í 6 vikur er aðallega unnið með virkni og neikvæðar hugsanir en einnig farið í fjölmarga aðra hluti sem skipta máli í langvinnu þunglyndi (sjá nánar: Inga Hrefna Jónsdóttir, Rósa María Guðmundsdóttir, Vera Siemsen og Þórunn Gunnarsdóttir, 2010). Eftirfylgdin er hugsuð sem áframhaldandi stuðningur þar sem áfram er unnið með virkni og bakslagvarnir en mun meiri áhersla er á núvitundaræfingar. Stefnt er að því að hópurinn (6-8 einstaklingar) hittist einu sinni í viku í átta vikur. Tímarnir skiptast í þrjá hluta, fræðslu, umræður og núvitundaræfingar. Þátttakendur eru samtals 150 einstaklingar sem hafa farið í gegnum hugræna atferlismeðferð á Reykjalundi. Rannsókn hefst í september 2012 og lýkur í september 2014. Segal, Williams og Teasdale (2002) hafa sýnt fram á að þegar núvitund er beitt samhliða hugrænni atferlismeðferð þá getur það dregið marktækt úr endurteknum veikindatímabilum fyrir sjúklinga sem hafa fengið endurtekið þunglyndi. Með því að stunda núvitund þá er hægt að koma í veg fyrir að venjulegur leiði sem við finnum öll fyrir inn á milli spírali niður í þunglyndi (Williams, Teasdale, Segal og Kabat-Zinn, 2007). Í hugrænni atferlismeðferð með núvitund er meiri áhersla á að hvetja sjúklinginn til að vera í núinu og tengjast hugsunum sínum og tilfinningum á meðan lítil áhersla er lögð á að breyta eða svara sjálfvirkum hugsunum (Sipe og Eisendrath, 2012). Slembiúrtaksrannsóknir með samanburðarhópum hafa sýnt að hugræn atferlismeðferð byggð á núvitund (MBCT) tilheyrir þeim hópi sálfræðimeðferða sem gagnast við langvinnri geðlægð, a.m.k. hjá þeim sem hafa fengið þrjú eða fleiri þunglyndistímabil (Gelsvik og Fennell, 2012).

Heimildir:

Gelsvik, B. og Fennell, M. (2012). Mindfulness-basert kognitiv terapi og forebygging av depressive tilbakefall: Bakgrunn, design og empirisk evidens. Tidsskrift for Norsk Psykologforening, 49, 571-577.
 
Inga Hrefna Jónsdóttir, Rósa María Guðmundsdóttir, Vera Siemsen og Þórunn Gunnarsdóttir (2010) (Ritstj.). HAM: Handbók um hugræna atferlismeðferð (6. útgáfa). Mosfellsbær: Reykjalundur endurhæfingarmiðstöð.

Segal, Z. V., Williams, J. M. G, Teasdale, J. D. (2002). Mindfulness-based cognitive therapy for depression: A new approaches to preventing relapse. New York: Guilford Press.

Sipe W. E. og Eisendrath S. J (2012). Mindfulness-based cognitive therapy: Theory and practice. Canadian Journal of Psychiatry, 57(2), 63-69.

Williams, J. M. G, Teasdale, J. D., Segal, Z. V. og Kabat-Zinn, J. (2007). The mindful way through depression: Freeing yourself from chronic unhappiness. New York: Guilford Press