Lungnateymi

Hjá lungnateymi fer fram endurhæfing fólks með sjúkdóma í öndunarfærum. Um er að ræða fullorðið fólk á öllum aldri með langvinna lungnasjúkdóma, skerta getu og minnkuð lífsgæði vegna mæði og þrekleysis.

HjúkrunarfræðingurSumir þurfa endurhæfingu eftir bráð veikindi eða skurðaðgerðir til dæmis fyrir og eftir lungnaígræðslu. Skilyrði er að fólk sé hætt tóbaksnotkun áður en endurhæfing hefst. Veittur er reykleysisstuðningur við komu á göngudeild eða með símaviðtölum.

Lungnaendurhæfing byggist á samvinnu margra fagstétta og er sniðin að þörfum hvers og eins.

Markmiðin eru að

  • auka þol og vöðvastyrk
  • rjúfa vítahring mæði og hreyfingarleysis
  • auka skilning á áhrifum lifnaðarhátta
  • breyta lífsstíl varanlega
  • stuðla að aðlögun að sjúkdómnum og einkennum hans
  • bæta líkamlega getu, andlega líðan og félagslega færni

Læknir sækir um lungnaendurhæfingu á Reykjalundi.

Yfirlæknir lungnasviðs og hjúkrunarstjóri fara yfir allar beiðnir sem koma til lungnasviðs og meta hvort líklegt sé að lungnaendurhæfing muni gagnast viðkomandi.

Fljótlega eftir að beiðni berst á lungnasvið hringir hjúkrunarstjóri í sjúklinginn, kannar heilsu hans og áhugahvöt til endurhæfingar, veitir upplýsingar um ferli endurhæfingarmats, en matið er forsenda lungnaendurhæfingar á Reykjalundi.

Sjúklingur fær boðun í skráningarmiðstöð Reykjalundar samhliða boðun í endurhæfingarmat.  Bókunarupplýsingar o.fl. er sent gegnum Heilsuveru.

Endurhæfingarmat er þverfaglegt mat lungnateymis á getu sjúklings, áhuga og vilja til að taka á heilsuvanda sínum með aðstoð fagfólks. Endurhæfingarmat á lungnasviði er tveggja daga ferli; tekin eru viðtöl, gert þolpróf og eftir atvikum önnur lífeðlisfræðileg próf.

Í lok endurhæfingarmats er ákveðið hvort innskrift í endurhæfingu henti viðkomandi, sem fær þá niðurstöðu með símtali.

Sé boðið upp á endurhæfingardvöl, er markmiðið að hún hefjist innan þriggja mánaða frá því að mati lauk. Þyki lungnaendurhæfing á Reykjalundi ekki fýsilegur kostur, er leitað annarra úrræða.

Um það bil fjórum dögum fyrir áætlaða innskrift á dagdeild lungna hringir hjúkrunarfræðingur í sjúkling til að staðfesta boðun og veitir upplýsingum um hagnýt atriði varðandi endurhæfinguna og nákvæma tímasetningu mætingar.

Meðferð á lungnasviði nær að öllu jöfnu yfir 4-6 vikna tímabil.

Eftirfylgd er einstaklingsbundin og fer eftir þörfum hvers og eins.

Lungnateymi sinnir eftirfarandi sjúklingahópum:

  • Langvinn lungnateppa og aðrir teppusjúkdómar
  • Trefjalungnabólga og aðrir herpusjúkdómar í lungum
  • Þjálfun fyrir og eða eftir lungnaskurðaðgerð s.s. vegna krabbameins í lunga
  • Aðrir lungnasjúkdómar, þjálfun fyrir og eftir lungnaígræðslu
  • Sjúkdómsástand þar sem einkenni frá lungum s.s. mæði eru ríkjandi

Fræðsla og námskeið á vegum lungnateymis

Meðferð

  • Félagsráðgjöf
  • Sálfræðiþjónusta
  • Sjúkraþjálfun
  • Iðjuþjálfun
  • Hjúkrun
  • Læknir

Eftir þörfum: næringarráðgjöf, talmeinafræðingur.

Meðferð byggir m.a. á ráðgjöf varðandi lífsstíl, hreyfingu og fræðslu.

Hreyfing: sjúkraþjálfun, heilsuþjálfun

Símatími hjúkrunarstjóra er á mánudögum og þriðjudögum kl. 11-12, Jónína Sigurgeirsdóttir. S: 585-2000.

Félagslegar upplýsingar

Ýmis samtök lungnasjúklinga

Meðferðarúrræði

Bæklingar