Félagsráðgjöf

Fólk sem þarfnast endurhæfingar vegna sjúkdóms eða fötlunar gagnast oft vel að fá viðtal hjá félagsráðgjafa sem meta og greina þarfir þar sem fólk býr við misjafnar félagslegar aðstæður. Markmiðið með endurhæfingu er að einstaklingurinn nái aftur eins góðri félagslegri, líkamlegri og andlegri færni og kostur er. Leitast er við að bæta lífsgæði og styðja fólk til sjálfshjálpar.

Félagsráðgjafar á Reykjalundi vinna með sjúklingum og eftir atvikum aðstandendum að úrlausnum félagslegra hindrana. Verkefni félagsráðgjafa eru fjölbreytt og veita þeir stuðning í persónulegum málum ásamt ráðgjöf um mismunandi réttindi innan velferðarsamfélagsins. Auk þess sem þeir aðstoða við umsóknir um félagsleg réttindi. Það getur meðal annars tengst fjármálum, búsetu, menntun, atvinnu, starfsendurhæfingu. Þeir leitast við að tryggja framfærslu á meðan endurhæfing stendur yfir og samfellda þjónustu við útskrift.

Félagsráðgjafar starfa í þverfaglegum teymum á Reykjalundi. Í endurhæfingu þurfa fjölmargir þættir að haldast í hendur til að meðferðin beri sem bestan árangur. Þeir eru auk þess tengiliðir við þá þjónustu félagslega kerfisins sem veitt er utan Reykjalundar.

Í Félagsráðgjafar hafa heildræna þekkingu á velferðarkerfinu og hafa það markmið að bæta lífsgæði einstaklinga sem til þeirra leita og fjölskyldna þeirra.
Félagsráðgjafar hafa milligöngu um og hafa samstarf við stofnanir og samræma þjónustu.

Réttindamál

  • TR: Endurhæfingar-, Örorku- og Ellilífeyrir, Heimilisuppbót, bifreiðarstyrkur
  • SÍ: Sjúkradagpeningar, ferðakostnaður, þátttaka í tannlækna- /lyfjakostnaði
  • Lífeyrissjóðir og stéttarfélög: Réttindi í Sjúkra- og styrktarsjóðum
  • Félagsþjónusta: Húsnæði, fjárhagsaðstoð, ferðaþjónusta, félagsleg heimaþjónusta, félagsstarf

Fjölskyldumál

  • Fjölskyldufundir: Veita upplýsingar og taka á móti upplýsingum
  • Fjölskylduviðtöl: Sniðin að þörfum hverju sinni

Atvinnumál

  • Mat á starfstengdri streitu/kulnun
  • Áætlun um endurkomu á vinnumarkað
  • Áframhaldandi endurhæfing – Virk starfsendurhæfingarsjóður – önnur úrræði

Fyrsti félagsráðgjafinn hóf störf á Reykjalundi árið 1976. Hann sinnti málum allra sem þess þurftu, en þá voru flest allir skjólstæðingar langdvalarsjúklingar. Eftir því sem virkum endurhæfingarplássum fjölgaði á kostnað langdvalarsjúklinga jókst þörfin fyrir félagsráðgjöf og frá árinu 2009 hafa verið 5 stöðugildi félagsráðgjafa.

Þegar tekin var upp þverfagleg teymisvinna á Reykjalundi fóru félagsráðgjafar að skipta með sér sviðum og starfa nú í öllum meðferðarteymum á Reykjalundi.

Félagsráðgjafar hafa frá upphafi tekið að sér nema í starfsþjálfun í félagsráðgjöf og er það mikilvægt samstarfsverkefni milli Reykjalundar og Háskóla Íslands.