Félagsráðgjöf
Fólk sem þarfnast endurhæfingar vegna sjúkdóms eða fötlunar býr við misjafnar félagslegar og fjárhagslegar aðstæður.
Félagsráðgjafar Reykjalundar vinna með sjúklingum og aðstandendum þeirra að úrlausnum félagslegra vandamála. Vandinn getur m.a. tengst fjármálum, búsetu, menntun, atvinnu, fjölskyldu o.fl. Félagsráðgjafar veita stuðning í persónulegum málum, upplýsingar um félagsleg réttindi og aðstoð við umsóknir þar að lútandi.
Í endurhæfingu þurfa fjölmargir þættir að haldast í hendur til að meðferðin beri sem bestan árangur. Eitt verkefni félagsráðgjafanna er að hafa milligöngu um og samræma þá þjónustu félagslega kerfisins sem veitt er utan Reykjalundar. Félagsráðgjafar hafa m.a. milligöngu í málum er varða Tryggingastofnun, Sjúkratryggingar Íslands, stéttarfélög, lífeyrissjóði, þjónustu á vegum sveitarfélaga, hagsmunafélög o.fl.
Félagsráðgjafar taka þátt í starfsemi þeirra teyma sem starfrækt eru á Reykjalundi.
Sagan og þróun í starfi félagsráðgjafa
Árið 1976 var fyrsti félagsráðgjafinn ráðinn á Reykjalund. Árið 1985 var ráðinn aðstoðarmaður félagsráðgjafa sem starfaði til ársins 2004.
Frá því að félagsráðgjafar hófu störf sinnti félagsráðgjafi og aðstoðarmaður félagsráðgjafa öllum Reykjalundi. Þörfin fyrir félagsráðgjafa og fleiri faghópa fór vaxandi með breyttri samsetningu sjúklingahópsins. Þegar fækkaði langdvalarsjúklingum, fjölgaði virkum endurhæfingarplássum og verkefnin breyttust. Stöðugildum félagsráðgjafa fjölgaði á árunum 1990-2009 úr einu í fimm og hefur sú tala haldist frá árinu 2009 þ.e. í dag eru fimm starfandi félagsráðgjafar á Reykjalundi. Þegar tekin var upp teymisvinna á Reykjalundi fóru félagsráðgjafar að skipta með sér sviðum og starfa nú félagsráðgjafar í öllum meðferðarteymum Reykjalundar.
Félagsráðgjafar hafa frá upphafi tekið að sér nema í starfsþjálfun í félagsráðgjöf og er það mikilvægt samstarfsverkefni milli Reykjalundar og Háskóla Íslands.
Frekari upplýsingar um félagsráðgjöf: