Meðferðarteymi

Á Reykjalundi eru starfandi 8 teymi. Rannsóknir hafa sýnt að þverfagleg endurhæfing skilar betri árangri þegar kemur að flóknum heilsufarsvanda.

VerkjateymiÞetta dæmi sýnir uppbyggingu verkjateymis á Reykjalundi. Örvarnar tákna samskipti. Góð samskipti og samvinna er mikilvæg bæði á milli fagfólks, en ekki síður á milli fagfólks og skjólstæðinga til þess að tryggja sem bestan árangur í endurhæfingunni. 

 

 

Meðferð

Meðferðin á Reykjalundi byggist á hugmyndafræði endurhæfingar þar sem teymisvinna sérhæfðs fagfólks er lögð til grundvallar. Vinna er heildræn og markmiðið er að sjúklingar nái aftur eins góðri andlegri, líkamlegri og félagslegri færni og mögulegt er. Þátttaka skjólstæðinga í meðferðinni er mikilvæg  og segja má að einn mikilvægasti þáttur þverfaglegrar teymisvinnu í endurhæfingu sé að virkja skjólstæðinga til þátttöku.

Þverfagleg teymisvinna

Til þess að ná sem mestum árangri er mikilvægt að fagfólk, sem hvert um sig er sérhæft á sínu sviði, nái að vinna þannig saman að þekking og reynsla þeirra nýtist sem best. Með því að vinna í þverfaglegum teymum erum við að reyna að ná árangri umfram getu einstaklinganna sem í teyminu starfa.

Teymisvinna á Reykjalundi

Þegar einstaklingur kemur á Reykjalund til endurhæfingar fær hann umsjónar-lækni, hjúkrunarfræðing, sjúkraþjálfara og iðjuþjálfa. Einnig hefur hann aðgang að fleiri fagstéttum innan síns teymis og jafnvel utan þess, þar sem vandamál hvers og eins geta verið mjög fjölþætt. Þegar umsjónarmeðferðaraðilar hafa hitt, skoðað og metið viðkomandi einstakling er lögð fram meðferðaráætlun, þar sem aðkoma allra meðferðaraðila kemur fram. Einnig er metin þörf  á viðtali og/eða meðferð hjá öðrum fagaðilum, eins og sálfræðingi, talmeinafræðingi, næringarráðgjafa eða félagsráðgjafa. Teymið fundar reglulega þar sem lagt er mat á árangur og meðferð. Í sumum tilfellum funda meðferðaraðilar sérstaklega með sjúklingi, t.d. á markmiðsfundum. Einnig eru fjölskyldufundir haldnir eftir þörfum.