Heilsuþjálfun

Heilsuþjálfun miðar að því að auka færni, kraft og úthald sjúklinga og stuðlar þannig að líkamlegri og andlegri uppbyggingu sjúklinga á Reykjalundi.

Heilsuþjálfarar eru lærðir íþróttakennarar, íþróttafræðingar og/eða íþróttalífeðlisfræðingar.

Heilsuþjálfarar sjá um almenna hreyfingu eins og leikfimi, göngur, sundkennslu og sundþjálfun. Þeir kenna stafgöngu, borðtennis, badminton og boccia. Þeir kynna almenningsíþróttir t.d. gönguskíði á veturna, golf og hjólreiðar á sumrin, taka þolpróf og framkvæma líkamsgreiningu. Heilsuþjálfarar bjóða reglulega upp á fjallgöngur og á sumrin er boðið upp á bátaferðir á Hafravatni. Einstök náttúra og umhverfi Reykjalundar nýtist vel til heilsueflingar allt árið um kring.

Heilsuþjálfun er hluti af þeirri heildrænu meðferð sem sjúklingum stendur til boða á Reykjalundi og byggir á þverfaglegri nálgun.

Eitt helsta hlutverk heilsuþjálfara er að kynna fjölbreyttar  íþróttagreinar og auka áhuga skjólstæðinga á reglulegri hreyfingu. Hreyfingin er bæði einstaklingsmiðuð og stunduð í hópum eftir þörfum. Framkvæmd eru göngupróf og líkamsgreining sem stöðumat og til  árangursmælinga. Heilsuþjálfarar sinna einstaklingum á öllum meðferðasviðum Reykjalundar.

Undirbúningur fyrir göngupróf

Mikilvægt er að koma vel undirbúinn fyrir göngupróf.
Undirbúningur fyrir göngupróf (pdf)

Það var 1. desember 1979 að fyrstu íþróttakennarar hófu störf á Reykjalundi. Það voru tveir heilsuþjálfarar, báðir í 50% starfi. Þeir sáu meðal annars um kvöldvökur, göngur, boccia og blaðaupplestur. Í byrjun áttunda áratugar síðustu aldar var byrjað að bjóða vistfólki á Reykjalundi á hestbak sem veitti fólki mikla ánægju. Núverandi íþróttaaðstaða var vígð 4. janúar 2002.

Hugmyndin að heilsuþjálfun kom með endurhæfingarlæknum sem lært höfðu í Noregi. Frá mars 1988 var heilsuþjálfun sjálfstærð þjálfunardeild.

Grein frá Lárusi S. Marinussyni heilsuþjálfara á Reykjalundi
Hreyfing - Lykill að betri líðan

Grein frá Hjalta Kristjánssyni heilsuþjálfara á Reykjalundi
Veðrið er betra en þú heldur!