Heilsuþjálfun

Heilsuþjálfun miðar að því að auka færni, kraft og úthald sjúklinga og stuðlar þannig að líkamlegri og andlegri uppbyggingu sjúklinga á Reykjalundi.

Heilsuþjálfarar eru lærðir íþróttakennarar, íþróttafræðingar og/eða íþróttalífeðlisfræðingar.

Heilsuþjálfarar sjá um almenna hreyfingu eins og leikfimi, göngur, sundkennslu og sundþjálfun. Þeir kenna stafgöngu, borðtennis, badminton og boccia. Þeir kynna almenningsíþróttir t.d. gönguskíði á veturna, golf og hjólreiðar á sumrin, taka þolpróf og framkvæma líkamsgreiningu. Heilsuþjálfarar bjóða reglulega upp á fjallgöngur og á sumrin er boðið upp á bátaferðir á Hafravatni. Einstök náttúra og umhverfi Reykjalundar nýtist vel til heilsueflingar allt árið um kring.

Heilsuþjálfun er hluti af þeirri heildrænu meðferð sem sjúklingum stendur til boða á Reykjalundi og byggir á þverfaglegri nálgun.

Eitt helsta hlutverk heilsuþjálfara er að kynna fjölbreyttar  íþróttagreinar og auka áhuga skjólstæðinga á reglulegri hreyfingu.  Hreyfingin er bæði einstaklingsmiðuð og stunduð í hópum eftir þörfum.  Framkvæmd eru göngupróf og líkamsgreining sem stöðumat og til  árangursmælinga. Heilsuþjálfarar sinna einstaklingum á öllum  meðferðasviðum Reykjalundar.

Veðrið er betra en þú heldur! Grein frá Hjalta Kristjánssyni heilsuþjálfara á Reykjalundi

Undirbúningur fyrir göngupróf

Mikilvægt er að koma vel undirbúinn fyrir göngupróf.

Undirbúningur fyrir göngupróf (pdf)

Sagan á Reykjalundi

Það var 1. desember 1979 að fyrstu íþróttakennarar hófu störf á Reykjalundi. Það voru Logi Ólafsson og Lilja Hallgrímsdóttir, bæði í 50% starfi. Þau sáu meðal annars um kvöldvökur, göngur, boccia og blaðaupplestur. Í byrjun áttunda áratugar síðustu aldar var byrjað að bjóða vistfólki á Reykjalundi á hestbak sem veitti fólki mikla ánægju. Núverandi íþróttaaðstaða var vígð 4. janúar 2002.

Í dag eru stöðugildin 4,75%. Frá upphafi til 1. mars 1988 hafði Magnús B. Einarsson læknir yfirumsjón með starfi heilsuþjálfara. Frá mars 1988 var Lárus S Marinusson gerður að yfirmanni sjálfstæðar þjálfunardeildar.

Nöfn nokkurra sem unnið hafa við heilsuþjálfun (ekki tæmandi listi) eru: Logi Ólafsson, Lilja Hallgrímsdóttir, Sigurjón Elíasson, Bjarki Bjarnason, Metta Helgadóttir, Ingólfur Freysson, Halldóra Björnsdóttir, Wolfgang Frosti Sahr, Geir Þorsteinsson, Guðrún Erla Þorvarðardóttir, Guðrún Eiríksdóttir, Hjördís Magnúsdóttir, Kristín Valdimarsdóttir, Elías Níelsson, Jóhanna M. Guðlaugsdóttir, Halldóra Blöndal, Sigurbjörg Gunnarsdóttir, Rebekka Sif Pétursdóttir og Kjartan Ólafsson.

Núverandi starfsmenn: Ágúst Már Jónsson, Bergur Heimir Bergsson, Hjalti Kristjánsson, Lárus S. Marinusson og Steinunn H. Hannesdóttir.