Geðheilsuteymi

Endurhæfing á geðheilsusviði Reykjalundar miðar að því að styðja einstaklinga í að finna leiðir til að lifa með sínum áskorunum, bæta lífsgæði og auka virkni í daglegu lífi. Unnið er með andlega, líkamlega og félagslega þætti eftir því sem við á.

Endurhæfingin byggist á samvinnu margra fagstétta og er sniðin að þörfum hvers og eins. Því er meðferðin talsvert mismunandi milli einstaklinga.

Mikilvægt er að viðkomandi geti tekið virkan þátt í endurhæfingunni.

Símatími geðheilsuteymis er á mánudögum kl 14.00 – 15:00.

Þar má fá upplýsingar varðandi biðlista og/eða koma á framfæri upplýsingum sem gætu skipt máli varðandi endurhæfinguna.

Hjúkrunarstjóri er Rósa María Guðmundsdóttir.

Beiðni þarf að berast frá lækni. Mikilvægt er að þar komi fram ítarlegar upplýsingar um hvað leggja þurfi áherslu á í endurhæfingunni og hvernig hefur verið tekist á við vanda einstaklingsins áður.

Bið eftir endurhæfingu getur verið allt að hálfu ári. Til geðheilsuteymis berast margar beiðnir og því miður er ekki hægt að sinna þeim öllum. Ef ekki næst að sinna beiðni innan sex mánaða, fellur hún  af biðlistanum. Nauðsynlegt er að senda nýja beiðni ef enn er þörf fyrir endurhæfingu.

Lengd dvalar er að jafnaði fjórar til sex vikur. Flestir eru á dagdeild frá kl. 8:00 til 16:00 virka daga. Einnig er hægt er að fá gistingu á staðnum ef þörf er á, t.d. ef fólk er utan af landi.

Aðstaða geðheilsuteymis er á annarri hæð (gangur C-2). Þar er móttaka og vakt frá mánudegi til fimmtudags milli kl. 08:00 og 18:00 og á föstudögum milli kl. 08:00 og 16:00.  Auk þess eru þar setustofa, hvíldar- og viðtalsherbergi.

Notkun tóbaks á Reykjalundi og á lóð staðarins er ekki leyfileg. Hægt er að fá stuðning á göngudeild Reykjalundur til að hætta að reykja fyrir innskrift.

Þörf fyrir endurhæfingu er metin út frá þeim upplýsingum sem fylgja beiðni og því er mikilvægt að þær séu greinargóðar. Við forgangsröðun koma ýmis atriði til álita s.s. aldur, þátttaka í samfélaginu, hvaða meðferð hefur verið reynd og hvernig hún hefur gengið. Lögð er áhersla á að sem flestir á biðlistanum fái tækifæri til að nýta sér endurhæfingu á Reykjalundi og því hafa þeir forgang sem ekki hafa komið til meðferðar áður.

Vegna forgangsröðunar getur biðin eftir því að komast að verið mislöng.