Faghópar

Endurhæfing er þverfagleg vinna og einkennist af samvinnu margra fagmanna sem ásamt sjúklingi hjálpast að við að ná markmiðum endurhæfingar.

Félagsráðgjafar vinna með sjúklingum og aðstandendum þeirra að úrlausnum félagslegra vandamála. Vandinn getur meðal annars tengst fjármálum, búsetu, menntun, atvinnu, fjölskyldu og fleiru. Félagsráðgjafar veita stuðning í persónulegum málum, upplýsingar um félagsleg réttindi og aðstoð við umsóknir þar að lútandi.
Heilsuþjálfarar eru lærðir íþróttakennarar, íþróttafræðingar eða íþróttalífeðlisfræðingar. Þeir sjá um almenna hreyfingu eins og leikfimi, göngur, sundkennslu og sundþjálfun, ásamt því að kenna stafgöngu, borðtennis, badminton og boccia. Einnig kynna heilsuþjálfarar almenningsíþróttir svo sem gönguskíði á veturna, golf og hjólreiðar á sumrin, taka þolpróf og gera fitumælingar.

Álagspróf, öndunarmælingar og svefnrannsóknir eru megin viðfangsefni hjarta- og lungnarannsóknarstofunnar.

Hjúkrunarfræðingar bera ábyrgð á hjúkrun á Reykjalundi og þeirri  þjónustu sem veitt er af hjúkrunarfræðingum og sjúkraliðum á  stofnuninni. Hjúkrun er einstaklingshæfð meðferð sem  byggist á þörfum  sjúklingsins og felst í að styðja sjúklinga til að taka á ýmsum þáttum  sem hafa áhrif á heilbrigði þeirra. Unnið er með lífsstíl og mögulegar  lífsstílsbreytingar. Þar má nefna svefn og svefnvenjur, slökun, næringu,  tóbaksnotkun, jafnvægi í daglegu lífi, félagslega virkni, sjálfsumönnun  og sjálfsumhyggju.

Algengt er að færni við iðju breytist í kjölfar sjúkdóms eða annars áfalls. Fólk getur átt í erfiðleikum með að annast sig og sína, vinna heimilisstörf, stunda atvinnu utan heimilis eða njóta þess sem lífið hefur upp á að bjóða. Iðjuþjálfun er skjólstæðingsmiðuð, sem þýðir að skjólstæðingurinn kýs sér viðfangsefni og vinnur síðan markvisst að því að ná fullnægjandi færni í þeirri iðju í samvinnu við iðjuþjálfa.

Lífeindafræði er fræðigrein sem nær yfir líffræði mannsins og rannsóknir sem aðgreina eðlilegt ástand og sjúklegt. Á Reykjalundi starfar lífeindafræðingur við svefnrannsóknir og öndunarmælingar á Hjarta- og lungnarannsóknarstofunni.
Heilbrigðisgagnafræðingar sjá um skráningu og viðhald sjúkraskrár, útbúa læknabréf, undirbúa innskrift og margt fleira. Markmið heilbrigðisgagnafræða á Reykjalundi er að veita samstarfsaðilum og skjólstæðingum góða þjónustu, stuðla að gæðum og skilvirkni í skráningu gagna í sjúkraskrá og að tryggja öryggi í meðferð sjúkraskráa skv. lögum nr. 55  frá 27. apríl 2009.
Læknir sem starfar við endurhæfingu þarf að hafa hæfni til að sjúkdómsgreina og meta færni, virkni og þátttöku sjúklings í lífi og starfi. Hann þarf að hafa þekkingu til að  setja upp endurhæfingaráætlun og þekkja úrræði sem í boði eru í samfélaginu. Hann þarf að hafa þekkingu á árangursmælingum í endurhæfingu og hæfileika til að miðla þekkingu til sjúklings og aðstandenda hans og til samstarfsfólks.
Næringarfræðingur ber faglega ábyrgð, stuðlar að faglegri þróun og gæðaþróun í manneldismálum Reykjalundar. Hann vinnur náið með öðrum starfsmönnum Reykjalundar, hefur umsjón með næringarráðgjöf bæði fyrir sjúklinga og starfsfólk. Næringarfræðingur veitir einstaklingsbundna næringarráðgjöf, starfar með hjarta-, manneldis-, næringar- og offituteymi Reykjalundar og er mötuneyti til ráðgjafar og stuðnings.
Andleg vanlíðan sem oft er fylgifiskur langvinnra veikinda og slysa getur haft hamlandi áhrif á framgang endurhæfingar. Hjá sumum skjólstæðingum er andleg vanlíðan svo sem kvíði og þunglyndi aðalástæða þess að þeir þurfa á endurhæfingu að halda. Hjá öðrum eru sálræn einkenni afleiðingar langvinnra verkja, offituvandamála eða þeirrar aðstöðu sem þeir búa við. Hlutverk sálfræðinga í endurhæfingu er mjög mikilvægt í því ferli að styðja einstaklinginn til sjálfsbjargar og betri lífsgæða.
Starf sjúkraþjálfara er mjög fjölbreytt og sjúkraþjálfarar vinna við að koma í veg fyrir eða draga úr afleiðingum áverka, álagseinkenna, sjúkdóma og lífsstíls sem með truflun á hreyfingu geta raskað lífi einstaklingsins.
Sjúklingum er vísað í talþjálfun af ýmsum orsökum. Það getur verið vegna málstols og annarra máltruflana í kjölfar áunnins heilaskaða eftir sjúkdóma eða slys, raddmeina, þvoglumæli, lestrarerfiðleika eða annarra tjáskiptavandamála. Talmeinafræðingar sinna einnig fólki með kyngingarerfiðleika.