Gigtarteymi
Endurhæfing gigtarsviðs miðar að því að styðja einstaklinga í að finna leiðir til að lifa með sínum sjúkdómi, bæta lífsgæði og auka virkni í daglegu lífi. Leitast er við að veita þverfaglega, einstaklingsmiðaða og heildræna meðferð. Tekið er á líkamlegum, andlegum og félagslegum þáttum eftir því sem við á. Mikilvægt er að einstaklingar taki virkan þátt í endurhæfingunni.
Eftir að beiðni er samþykkt á gigtarsviði fær viðkomandi bréf þess efnis og hann boðaður á kynningarfund ásamt aðstandanda. Markmið fundarins er að upplýsa einstaklinga um hugmyndafræði þeirrar endurhæfingar sem fram fer og undirbúa með fræðslu og hvatningu.
Fljótlega eftir kynningarfund er einstaklingur boðaður í endurhæfingarmat sem stendur yfir í 4-5 daga. Fagfólk leggur mat á heilsu, færni og áhugahvöt einstaklings í gegnum viðtöl, fræðslu og þátttöku. Veittur er stuðningur við að setja markmið og finna leiðir til heilsueflingar í nærumhverfi. Lagt er mat á hvort og þá hvenær einstaklingur hefur þörf á áframhaldandi endurhæfingu á gigtarsviði, sem að öllu jöfnu stendur yfir í 5 vikur.
Á gigtarsviði fer fram endurhæfing einstaklinga með langvinn stoðkerfiseinkenni og magnleysi af völdum gigtarsjúkdóma s.s. bólgugigtar, slitgigtar og vefjagigtar. Einnig endurhæfing einstaklinga með langvinn verkjavandamál og eftir alvarleg veikindi og álag.
Námskeið:
- Verkjaskóli
- Slökun- og streitustjórnun
- Geðheilsuskóli
- Hugræn atferlismeðferð
Fræðsla:
- Um hreyfingu
- Um liðvernd
- Um neysluvenjur
- Um reyklaust líf
- Um vefjagigt
Símatími Hafdísar Gunnarsdóttur hjúkrunarstjóra gigtarsviðs er á mánudögum kl. 11-12. Einnig er hægt að hafa samband á Reykjalund í síma 585-2000 og fyrirspurnum verður svarað eins fljótt og hægt er.