Hjúkrun

Innan hjúkrunar starfa hjúkrunarfræðingar og sjúkraliðar. Hjúkrunarfræði er kennd við Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri. Námið er fjögur ár og lýkur með BS gráðu. Nám til starfsréttinda sjúkraliða er skilgreint í aðalnámskrá framhaldsskóla og fer fram í fjölbrautaskólum og verkmenntaskólum.

Fyrsta hjúkrunarkonan sem tók til starfa á Reykjalundi var Valgerður Helgadóttir. Hún var  yfirhjúkrunarkona frá stofnun staðarins 1945 allt til ársins 1961. Valgerður átti stóran þátt í að móta endurhæfingarstarfið og þann anda sem einkennir Reykjalund enn þann dag i dag.

Hjúkrun á Reykjalundi

HjúkrunarfræðingarÁ Reykjalundi er veitt heildræn hjúkrun þar sem þarfir hvers og eins eru hafðar í fyrirrúmi. Hjúkrunarfræðingar vinna við líkamlega og andlega aðhlynningu, veita stuðnings- og samtalsmeðferð, fræðslu og ráðgjöf.

Hjúkrunarfræðingar styðja sjúklinginn til að taka á þeim þáttum sem hafa áhrif á heilbrigði hans með því að vinna með lífsstíl og mögulegar lífsstílsbreytingar. Þar má nefna svefn og svefnvenjur, slökun, næringu, reykleysi, jafnvægi í daglegu lífi, félagslega virkni, sjálfsumönnun og sjálfsumhyggju.

Við komu fær sjúklingurinn umsjónarhjúkrunarfræðing sem skipuleggur hjúkrunarmeðferð í samráði við hann. Hjúkrunarmeðferðin er byggð á greiningum og meðferðaráætlunum samkvæmt tilmælum Landlæknisembættisins.

Markmið
  • Að veita sjúklingum og aðstandendum þeirra hjúkrun sem byggð er á gagnreyndri þekkingu.
  • Að mennta nemendur í grunn- og framhaldsnámi í samstarfi við menntastofnanir á heilbrigðissviði.
  • Að rannsaka viðfangsefni hjúkrunar og þróa aðferðir til að bæta þjónustuna.
  • Að stuðla að tækifærum til markvissrar starfsþróunar innan hjúkrunar.
  • Að taka þátt í virkri og árangursríkri teymisvinnu með öðrum heilbrigðisstéttum.