Hjúkrun

HjúkrunarfræðingarÁ Reykjalundi er veitt einstaklingshæfð og heildræn endurhæfingarhjúkrun með áherslu á umhyggju og tilfinningalegan stuðning.

Í hjúkrun á Reykjalundi er lögð áhersla á fræðslu og stuðning við einstaklinginn til að efla sjálfsbjargargetu hans og heilbrigðan lífstíl. Hjúkrunarfræðingar vinna við líkamlega og andlega aðhlynningu. Þeir veita stuðnings- og samtalsmeðferð, umhyggju, fræðslu og ráðgjöf.

Fyrstu tengsl sjúklinga við Reykjalund eru oft í gegnum símtöl við hjúkrunarfræðing á meðan þeir eru á biðlista eftir því að komast að á Reykjalund. Við komu á Reykjalund fær sjúklingur umsjónarhjúkrunarfræðing sem skipuleggur hjúkrunarmeðferð í samráði við hann. Hjúkrunarmeðferðin, sem er byggð á gagnreyndri þekkingu, samanstendur af  greiningum og meðferðaráætlunum samkvæmt tilmælum Landlæknisembættisins.

Hjúkrunarmeðferðir í endurhæfingarhjúkrun eru fjölbreyttar og taka til einstaklingsmiðaðra þarfa sjúklingsins. Hjúkrunarfræðingar Reykjalundar vinna mikilvægt starf í því að efla vísindalega þekkingu og meðferð innan endurhæfingarhjúkrunar á Íslandi.

Fyrsta hjúkrunarkonan sem tók til starfa á Reykjalundi var Valgerður Helgadóttir. Hún var yfirhjúkrunarkona þegar endurhæfingarmiðstöðin var stofnuð árið 1945 og hóf þá strax störf við að undirbúa innskrift fyrstu sjúklingana. Valgerður starfaði á Reykjalundi allt til ársins 1961 og átti stóran þátt í að móta allt endurhæfingarstarfið og leggja grunn að þeim anda sem einkennir Reykjalund enn þann dag i dag.