Lækningar
Læknisfræði er fræðigrein um gerð mannslíkamans og sjúkdóma og lækningu þeirra. Um lækna og læknisstarfið gilda lög um heilbrigðisstarfsmenn. Rétt til að stunda lækningar á Íslandi og kalla sig lækni hefur sá sem fengið hefur tilskilin leyfi frá Landlækni. Velferðarráðherra setur nánari ákvæði í um réttindi og skyldur lækna.
Grunnnám
Grunnnám í læknisfræði er 6 ára háskólanám. Eftir þann tíma útskrifast læknaneminn með prófgráðuna kandídat í læknisfræði. Síðan taka við aðstoðarlæknisstörf í samtals 12 mánuði á viðurkenndum heilbrigðisstofnunum til þess að fá lækningaleyfi og mega kalla sig lækni.
Sérnám
Í viðbót við almennt lækningaleyfi þarf læknir viðbótarnám að lágmarki 4 1/2 ár til þess að hljóta sérfræðileyfi í ákveðinni grein læknisfræðinnar. Sérnám má einungis fara fram á þeim heilbrigðisstofnunum sem viðurkenndar eru til slíks sérnáms í heimalandi sínu. Heilbrigðisráðherra veitir heilbrigðisstofnunum hér á landi slíka viðurkenningu samkvæmt tillögu þriggja lækna nefndar sem metur starfsemi þeirra.
Læknir hefur rétt til þess að kalla sig sérfræðing og starfa sem slíkur á Íslandi hafi hann fengið til þess leyfi Landlæknis.
Endurhæfingarlækningar
Til þess að fá sérfræðileyfi í endurhæfingarlækningum skv. íslensku reglugerðinni þarf læknir að hafa lokið námi og vinnu á eftirfarandi deildum: Þremur árum á endurhæfingardeild,einu ári á lyfjadeild og 1/2 ári á geðdeild. Á Íslandi hafa Reykjalundur og endurhæfingardeild Landspítala að Grensási haft kennsluleyfi í endurhæfingarlækningum.
Sjúklingar koma til mats og meðferðar á Reykjalundi með beiðni frá lækni. Læknar Reykjalundar bera ábyrgð á læknisfræðilegri endurhæfingu sjúklings meðan hann er í meðferð á stofnuninni.
Endurhæfingarmeðferð er þverfagleg og byggir á þekkingu og samstarfi margra fagstétta. Yfirlæknir meðferðarteymis er faglegur stjórnandi þess og ber læknisfræðilega ábyrgð á starfi teymisins. Hann verður að hafa góða samskiptafærni og leiðtogahæfileika.
Læknir sem starfar við endurhæfingu þarf að hafa
- hæfni til að sjúkdómsgreina og meta færni, virkni og þátttöku sjúklings í lífi og starfi
- þekkingu til að setja upp endurhæfingaráætlun og hafa þekkingu á þeim úrræðum sem í boði eru í samfélaginu
- þekkingu á árangursmælingum í endurhæfingu
- hæfileika til að miðla bæði til sjúklings og aðstandenda hans svo og til samstarfsfólks