Næringarráðgjöf

Næringarfræðin er heilbrigðisvísindagrein sem fjallar um líffræði mannsins, heilsu og næringu. Fræðigreinin fjallar m.a. um næringarefnin og hlutverk þeirra,  mismunandi næringargildi ólíkra fæðutegunda og fæðutengdra efna og áhrif þeirra á líkamsstarfsemi.

Matur spilar stórt hlutverk í okkar daglega lífi og að geta borðað mat og notið þess eru mikil lífsgæði. Það er fjölmargt sem hefur áhrif á fæðuval okkar og einnig samband okkar við mat. Því er mikilvægt að næringarfræðingur taki tillit til ýmissa þátta og ólíkra aðstæðna fólks og mæti fólki þar sem það er statt. Að hver og einn upplifi sig við stjórnvölinn er mikilvægt fyrir árangur.

Næringarfræðingar meta næringarástand og veita viðeigandi næringarmeðferð og ráðgjöf. Markmið meðferðar er að bæta heilsu og vellíðan einstaklingsins til skemmri og lengri tíma, tryggja að næringarefnaþörf sé mætt og að bæta lífsgæði viðkomandi. Gott næringarástand er talinn mikilvægur þáttur þegar kemur að góðum árangri endurhæfingar.

Næringarfræðslan

Í þverfaglegri endurhæfingu veitir næringarfræðingar Reykjalundar einstaklingsmiðaða næringarmeðferð og ráðgjöf sem byggð er á gagnreyndum rannsóknum. Næringarfræðingar gera næringarmat og veita viðtöl í þeim teymum sem þeir starfa í eftir þörfum. Næringarfræðingar sinna fjölbreyttri næringarfræðslu bæði innan einstakra sviða og sjá einnig um fræðslur sem eru opnar öllum skjólstæðingum Reykjalundar, t.d. má nefna:

  • Fræðsla um mataræði í tengslum við sykursýki af tegund 2.
  • Streita og næring
  • Bólgur og næring
  • Þarmaflóran
  • Næring í tengslum við Parkinson, MS, Hjarta- og æðasjúkdóma og Efnaskipta- offitusjúkdóma
  • Innihaldslýsingar og umbúðarmerkingar
  • Magnvitund
  • Máltíðarmynstur og samsetningar
  • Áhrifavaldar
Fyrsti næringarfræðingurinn var fastráðinn í 50% stöðu á Reykjalund í janúar 2007 sem var svo aukið í 100% starf árið 2010. Í dag eru starfandi 3 næringarfræðingar á Reykjalundi í samtals 2,8 stöðugildum. Þeir sitja í teymum á meðferðarsviði 1 ásamt því að vera ráðgefandi fyrir meðferðasvið 2.