Sálfræðiþjónusta

Í þverfaglegri endurhæfingu veitir sálfræðingur einstaklingsmiðaða sálfræðiþjónustu. Gerir sálfræðimat og veitir sálfræðiviðtöl. Sér um og vísar í fræðslu og hópmeðferð þar sem það á við. Sálfræðingur vinnur að því að efla sálfræðileg gagnreynd úrræði og vísindaþekkingu innan endurhæfingar.

Sálfræðilegt mat getur falið í sér mat á andlegri líðan, geðröskunum, persónuleikaþáttum, námserfiðleikum, ADHD, einhverfueinkennum, taugasálfræðilegum þáttum eða vitrænni getu. Í sálfræðimati eru oft notuð sálfræðipróf, matskvarðar, spurningalistar og sérstök taugasálfræðileg próf. Sérfræðingur í taugasálfræði sér um taugasálfræðilegt mat.

Hugrænar breytingar og andleg vanlíðan í kjölfar langvinnra veikinda og slysa getur haft hamlandi áhrif á bata. Andleg vanlíðan svo sem kvíði og þunglyndi getur verið aðalástæða þess að þörf er á endurhæfingu. Hjá öðrum eru sálræn einkenni afleiðingar heilsufarsvanda eða þeirrar aðstöðu sem þeir búa við. Í meðferðarvinnu sálfræðings er stuðst við gagnreyndar sálfræðimeðferðir með bakgrunn í hugrænni atferlismeðferð (HAM) til að draga úr einkennum og styðja einstaklinginn til sjálfsbjargar og betri lífsgæða.

Sálfræðingar koma að margvíslegri fræðslu í sínum teymum og þvert á teymi svo sem geðheilsufræðslu, hjartafræðslu og fræðslu á efnaskipta og offitusviði. 

Þeir eru með HAM hópa, ACT hópa og námskeið um hugræna þreytu. Heiti hópanna er: Hugræn atferlismeðferð (HAM) við þunglyndi og kvíða, Betra sjálfsmat: HAM við lágu sjálfsmati, Þekktu þitt magamál, ACT við þrálátum verkjum, Núvitund, HAM/ACT, Hugræn þreyta – minnisnámskeið.

Árið 2000 var Inga Hrefna Jónsdóttir ráðin fyrsti forstöðusálfræðingur Reykjalundar og var eini sálfræðingurinn á Reykjalundi fyrstu þrjú árin. Áður höfðu sálfræðingar komið ráðgefandi að sérstökum málum, aðallega Tryggvi Sigurðsson og Jónas G. Halldórsson hin síðari ár, frá því Gylfi Ásmundsson sálfræðingur sinnti Vinnuheimilinu að Reykjalundi í kringum 1970. Árið 2004 var fyrsti taugasálfræðingurinn ráðinn til starfa. Árið 2009 -2010 voru tveir sálfræðingar ráðnir tímabundið í tengslum við heilaskaðaverkefni. Árið 2014 störfuðu sjö sálfræðingar á Reykjalundi í sex stöðugildum og skiptu sér niður á öll teymin. Í upphafi árs 2023 eru 9 sálfræðingar starfandi á Reykjalundi í 7,4 stöðugildum, þar af eru tveir taugasálfræðingar í 1,8 stöðugildi. Af þessum 9 starfandi sálfræðingum á Reykjalundi eru 7 sérfræðingar í klínískri sálfræði og 2 með doktorspróf.