Sjúkraþjálfun

Sjúkraþjálfarar á Reykjalundi eru í lykilhlutverki í meðferð skjólstæðinga og starfa í þverfaglegum teymum með öðrum heilbrigðisstéttum. Sjúkraþjálfarar veita skjólstæðingum þjónustu sem miðar að því að bæta, viðhalda og endurhæfa hreyfifærni til aukinna lífsgæða. Þjónustan felur í sér greiningu og meðferð líkamlegra einkenna, þjálfun og leiðsögn til sjálfshjálpar og vinnu við forvarnir gegn frekari heilsu bresti.

Sjúkraþjálfun er starfsgrein á heilbrigðissviði sem byggist á þekkingu á stoðkerfi og hreyfikerfi líkamans. Starfið felst í að koma í veg fyrir eða draga úr afleiðingum áverka, álagseinkenna, sjúkdóma og lífsstíls sem með truflun á hreyfingu getur raskað lífi einstaklingsins. Verkefni sjúkraþjálfara eru fjölbreytt þar sem hreyfigeta líkamans, hreyfihegðun einstaklingsins og umhverfið sem sjúklingurinn hreyfir sig í er órjúfanleg heild.

Meðferð sjúkraþjálfara byggir á mati, mælingu og greiningu vanda einstaklingsins. Í meðferðinni er beitt fjölbreyttum aðferðum til að bæta líkamsástand hvers og eins. Mikil áhersla er lögð á hvatningu og ráðgjöf varðandi hreyfingu og líkamsþjálfun að endurhæfingu lokinni, allt til að viðhalda markmiðum endurhæfingarinnar.

Í upphafi meðferðar sjúkraþjálfara er staðan tekin með ítarlegu viðtali, upplýsingaöflun um líkamlegt ástand, skoðun og mælingum. Í samvinnu við skjólstæðing er gerð einstaklingsmiðuð áætlun um næstu skref.

Markmið meðferðar sjúkraþjálfara getur verið að auka líkamsvitund, draga úr álagi á liði og vöðva, minnka verki, auka styrk og úthald, draga úr byltuhættu, viðhalda liðleika og mýkt vöðva svo eitthvað sé nefnt.

Meðferðin felur í sér ýmis handtök, notkun rafmagnstækja, fræðslu, sértæka þjálfun og tilsögn. Einnig almenn þjálfun til að draga úr áhrifum ólíkra sjúkdómseinkenna og veikinda og auka möguleika til þátttöku í daglegu lífi.

Notast hefur við meðferðarformið hópþjálfun á Reykjalundi allt frá árinu 1980 er nokkrir starfsmenn fóru utan og kynntu sér það í Noregi. Meðferð í hópum er mjög mikilvæg og ekki síður skemmtileg fyrir skjólstæðinga að fá að reyna sig með öðrum. Einnig sinna sjúkraþjálfarar viðtölum á göngudeild fyrir og eftir endurhæfingu á Reykjalundi.

Margir fræðslu- og þjálfunarhópar sem sjúkraþjálfarar stýra eða eru hluti af þverfaglegu teymi eru í boði á Reykjalundi:

  • Vatnsleikfimi
  • Hreyfiflæði
  • Gönguhópar
  • Morgunliðkun
  • Þrekþjálfun í hjólasal
  • Færniþjálfun
  • Jafnvægishópur
  • Líkamsvitund
  • Dans
  • Verkjaskóli
  • Geðheilsuskóli
  • Lungnaskóli
  • Vinna á rannsóknarstofu
  • Þátttaka í fræðslu á öllum meðferðasviðumar

Hreyfiseðill er úrræði sem hefur verið í boði á Reykjalundi síðan haustið 2015. Tveir hreyfistjórar starfa á Reykjalundi og eru þeir menntaðir sjúkraþjálfarar.

Hreyfiseðill er að sænskri fyrirmynd og er stuðningur við einstakling sem ætlar sér að breyta hreyfivenjum sínum.

Einstaklingar fara í viðtal til hreyfistjóra þar sem farið er yfir hreyfisögu og tekin viðeigandi próf. Í sameiningu er sett upp einstaklingsmiðuð hreyfiáætlun. Hún getur verið allt frá því að ganga örstutt í einu upp í að fara í sund eða á líkamsræktarstöðina daglega. Hreyfiáætlanir eru mismunandi eftir sjúkdómsgreiningum og ástandi hvers og eins. Viðkomandi skráir sig inn í gegnum Heilsuveru með rafrænum skilríkjum og merkir við sig þar að hann hafi framfylgt þeirri hreyfiáætlun sem lagt var upp með. Markmiðið er að þetta sé einfalt úrræði sem styðji við hvern og einn að halda sinni hreyfiáætlun áfram. Við útskrift af Reykjalundi fá skjólstæðingar oft hreyfiseðil.

Hreyfistjórar Reykjalundar eru Heidi Andersen og Helga Ágústsdóttir.

Saga sjúkraþjálfunar á Reykjalundi spannar rúm 60 ár. Árið 1960 var fyrsti sjúkraþjálfarinn ráðinn á Reykjalund en það var Jón Ásgeirsson. Í kjölfar hans bættust svo við Ella Kolbrún Kristinsdóttir og Birgir Johnson sjúkraþjálfarar. Árið 1963 var sjúkraþjálfunardeild formlega stofnuð, 1987 flutti deildin í núverandi húsnæði. Þjálfunarhúsið var svo vígt 2002. Árið 2023 eru 20 sjúkraþjálfarar að störfum auk 5 aðstoðarmanna og sundlaugarvarða.