Iðjuþjálfun

Iðjuþjálfar gegna lykilhlutverki innan endurhæfingar, forvarna og vinnuverndar. Iðjuþjálfar eru heilbrigðisstétt með sérþekkingu á daglegri iðju mannsins í tengslum við heilsu, umhverfi og velferð.

Algengt er að færni við iðju breytist í kjölfar sjúkdóms eða annars áfalls. Fólk getur átt í erfiðleikum með að annast sig og sína, vinna heimilisstörf, stunda atvinnu eða njóta þess sem lífið hefur upp á að bjóða.

Iðjuþjálfar meta og greina færni einstaklings við framkvæmd iðju. Markmið iðjuþjálfunar er að auka færni, sjálfstæði og þátttöku í iðju sem hefur gildi og er mikilvæg.

Iðjuþjálfar efla færni með þjálfun, ráðgjöf, aðlögun og fræðslu og standa fyrir fjölbreyttri einstakling-og/eða hópameðferð.

Meðferð sem iðjuþjálfar sinna: verkjaskóli, námskeið um jafnvægi í daglegu lífi, fræðsla um temprun, liðvernd, orkusparnað og vinnuhagræðingu, slökun, markmiðssetningu og skipulagningu á daglegri iðju, handæfingar, þjálfun í daglegum athöfnum í eigin umsjá, í eldhúsi og á verkstæði iðjuþjálfunar, mat á aksturshæfni, heimilis- og vinnustaðaathugun, tengja einstaklinga inn í úrræði út í samfélaginu, þjálfun á styrk, liðleika og skynjun, ráðgjöf varðandi hjálpartæki og aðlögun umhverfi.

Lögð er áhersla á að fólk upplifi jafnvægi í daglegu lífi sem bætir heilsu og eykur vellíðan.

Saga iðjuþjálfunar á Reykjalundi spannar tæp 50 ár, fyrsti iðjuþjálfinn hóf störf árið 1974 og hefur iðjuþjálfum fjölgað jafnt og þétt síðan. Árið 2023 starfa hér 17 iðjuþjálfar og 3 aðstoðarmenn.

Iðjuþjálfadeildin var endurhönnuð og stækkuð í núverandi mynd árið 2013.