Ráð og nefndir

Á Reykjalundi er starfandi fagráð. Fagráð starfar samkvæmt 13. gr. í lögum um heilbrigðisþjónustu frá árinu 2007. Þar segir að fagráð “skulu vera forstjóra og framkvæmdastjórn til ráðuneytis um fagleg atriði í rekstri heilbrigðisstofnunar. Ber að leita álits fagráða um mikilvægar ákvarðanir sem varða heilbrigðisþjónustu stofnunarinnar.“

Skipan fagráðs og starfshættir:
Í fagráði eiga sæti með fullum réttindum fulltrúar allra heilbrigðisstétta sbr. lög nr. 40 frá 27. mars 2007, auk annarra fagstétta sem koma beint að endurhæfingu sjúklinga á Reykjalundi.

Hver fagstétt tilnefnir eða kýs einn fulltrúa í fagráð. Í fagráði sitja fulltrúar frá eftirtöldum fagstéttum: Félagsráðgjöfum, heilsuþjálfurum, hjúkrunarfræðingum, iðjuþjálfum, læknum, næringarfræðingum, sálfræðingum, sjúkraliðum, sjúkraþjálfurum og talmeinafræðingum. Fagráð fundar að jafnaði einu sinni í mánuði nema yfir sumartímann.

Meginhlutverk gæðaráð er að veita gæðastarfi á Reykjalundi  forystu og að vera framkvæmdastjórn til ráðgjafar um bætt öryggi og skipulag vinnunnar. Markmið með öflugu gæðastarfi er aukið öryggi sjúklinga og starfsmanna, að tryggja stöðugar umbætur í starfinu og skilvirkari þjónustu.

Helstu hlutverk gæðaráðs eru að:

  • Endurskoða gæðastefnu Reykjalundar og vera framkvæmdaraðili hennar.
  • Fylgjast með stefnum og straumum í gæðamálum, leita nýrra leiða og standa fyrir þróun í gæðamálum og umbótastarfi.
  • Setja starfseminni viðurkennda gæðastaðla í samráði við fagsvið Reykjalundar kynna þá og uppfæra eftir þörfum.
  • Setja viðurkennda árangursmælikvarða í samráði við fagsviðin og standa fyrir reglulegum árangursmælingum.
  • Halda rafræna gæðahandbók í samráði við fagsviðin og sjá um að hún sé virk og notendavæn.
  • Greina, skrá og tilkynna frávik í starfseminni og bregðast við þeim á viðeigandi hátt.
  • Funda reglulega með starfsfólki og hvetja þau til að vera virk í gæðastarfinu.

Lyfjanefnd starfar á Reykjalundi samkvæmt 40. gr. lyfjalaga nr. 93/1994 með áorðnum breytingum.

Hlutverk  nefndarinnar er að vera ráðgefandi um lyfjaval, hafa eftirlit og  yfirlit yfir lyfjanotkun á Reykjalundi, gefa út lyfjalista fyrir stofnunina, gefa út leiðbeiningar um notkun lyfja í ákveðnum og völdum  tilfellum og koma með ábendingar um það sem betur mætti fara í  lyfjamálum. Nýskráð lyf eða lyf sem ekki eru á lyfjalista má ekki taka í  notkun nema að fengnu leyfi lyfjanefndar. Þess skal gætt þegar völ er á fleiri en einu lyfi að velja til notkunar á heilbrigðisstofnunum þau  lyf sem ódýrari eru að teknu tilliti til virkni, gæða og öryggis.

Skipan lyfjanefndar Framkvæmdastjóri lækninga skipar þriggja manna lyfjanefnd að fenginni tilnefningu um nefndarmann frá framkvæmdastjóra hjúkrunar.   Framkvæmdastjóri lækninga skipar einnig formann nefndarinnar. Skal að minnsta kosti einn starfandi lækna Reykjalundar og einn starfandi lyfjafræðingur í þjónustu við Reykjalund vera í nefndinni.

Hlutverk nefndarinnar er að vinna að vefmálum Reykjalundar m.a. vefsíðu Reykjalundar á íslensku og ensku, innri síðu ætlaða starfsmönnum og fésbókarsíðu. Vefnefnd hefur verið starfandi frá árinu 2010.

 Vefnefnd tryggir gæði vefmála Reykjalundar, með því að:

  • Þróa og framfylgja markmiðum vefstefna Reykjalundar
  • Þróa efni sem birtist á vefsíðum Reykjalundar með því markmið að efni sé sem mest lifandi og veki áhuga á málefnum Reykjalundar.
  • Þróa framsetningu efnis. 

Í vefnefnd starfa þrír fulltrúar starfsmanna frá mismunandi teymum og faghópum. Að jafnaði situr hver þeirra í þrjú ár, síðasta árið sem formaður vefnefndar. Framkvæmdastjórn skipar nýjan nefndarmann á hverju ári.
Upplýsingatækni- og vefstjóri vinnur náið með vefnefnd og situr alla fundi. Fundir eru að jafnaði einu sinni í mánuði.

Hlutverk vísindaráðs er:

  • Að vera stjórn og stjórnendum Reykjalundar ráðgefandi um vísindastefnu stofnunarinnar.
  • Að vinna náið með rannsóknarstjóra að framgangi vísindastefnunnar.
  • Að vinna að formlegum tengslum og samstarfi við aðrar stofnanir, innanlands og utan.
  • Að leggja faglegt mat á allar umsóknir um styrki úr vísindasjóði og skila áliti til framkvæmdastjórnar.
  • Að gæta samræmis í þeim matstækjum sem notuð eru á stofnuninni og vera ráðgefandi um stöðluð vinnubrögð við beitingu þeirra.

Samkvæmt reglum um rannsóknir á Reykjalundi skal þriggja manna vísindaráð skipað af framkvæmdastjórn á fyrsta ársfjórðungi hvers árs samkvæmt tilnefningu starfsmanna að undangenginni auglýsingu. Einn gengur úr ráðinu á hverju ári og nýr kemur inn. Hver vísindaráðsmaður situr þannig þrjú ár í ráðinu og gegnir formennsku síðasta árið. Vísindaráð skal  vera þverfaglegt og jafnræðis gætt milli faghópa við skipan í ráðið. Rannsóknastjóri RL er fundarritari vísindaráðsfunda og kemur einnig að öðrum verkefnum í ráðinu.

Öryggisnefnd Reykjalundar starfar samkvæmt lögum um vinnuvernd nr. 46/1980 sem fjalla um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Þar segir meðal annars:

"Í fyrirtækjum, þar sem eru 50 starfsmenn eða fleiri, skal stofna öryggisnefnd. Starfsmenn kjósa úr sínum hópi tvo fulltrúa og atvinnurekandi tilnefnir tvo fulltrúa. Þessi nefnd skal skipuleggja aðgerðir varðandi aðbúnað, hollustuhætti og öryggi innan fyrirtækisins, annast fræðslu starfsmanna um þessi efni og hafa eftirlit á  vinnustöðum með því, að ráðstafanir er varða aðbúnað, hollustuhætti og  öryggi komi  að tilætluðum notum." (6. gr.)

Síðustu ár hefur  öryggisnefndin  unnið að áhættumati og viðbragðsáætlunum á einstökum vinnustöðvum og áhættumati og viðbragðsáætlun vegna eineltis, kynbundinnar áreitni, kynferðislegrar áreitni og ofbeldis. Fundir eru haldnir eftir þörfum yfir árið.