Saga Reykjalundar

Reykjalundur er í eigu SÍBS, Sambands íslenskra berkla- og brjóstholssjúklinga. Markmið Reykjalundar er að veita læknisfræðilega, atvinnulega og félagslega endurhæfingu.

Stofnun SÍBS

SÍBS var stofnað 1938 af berklasjúklingum á Vífilsstaðaspítala, Reykjahæli í Ölfusi, Kristnesspítala og sjúkrahúsunum í Reykjavík.

Markmið samtakanna var að stuðla að útrýmingu berklanna og berjast fyrir bættum kjörum berklasjúklinga. Fljótlega varð til hugmyndin um stofnun vinnuheimilis fyrir þá sem voru útskrifaðir af berklasjúkrahúsunum. Á vinnuheimilinu var leitast við að nýta til fullnustu starfsorku sjúklinga án þess að ofbjóða þeim sem oft hafði gerst ef þeir fóru að vinna á almennum vinnumarkaði strax eftir sjúkrahúsvist. Slíkt vinnuheimili gat orðið tengiliður milli sjúkrahúsanna og hins daglega lífs. Á vinnuheimili gátu berklasjúklingar endurheimt krafta sína og lært nýja iðn ásamt því að fá þá hjúkrun og umönnun sem nauðsynleg var til að ná heilsu.

Starf sambandsins næstu ár beindist fyrst og fremst að því að afla fjár til þessara framkvæmda. Árið 1944 keypti SÍBS land fyrir vinnuheimilið af eigendum Syðri-Reykja í Mosfellssveit. Kostir þessarar staðsetningar voru margir m.a. að staðurinn var í góðu vegasambandi við nágrannabyggðarlög, þar var jarðhiti og rafmagn og einnig var það kostur að á landinu voru braggar frá hernámsárunum. Fyrstu árin voru braggarnir notaðir fyrir hluta af starfsemi vinnuheimilisins m.a. sem saumastofur, tré-og járnsmíðaverkstæði og bíósalur.

Byggingaframkvæmdir

Fljótlega eftir að landið var keypt var byrjað á að byggja smáhýsi fyrir vistmenn og 1. febrúar 1945 hófst rekstur vinnuheimilisins og móttaka vistmanna. Þá fékk staðurinn nafnið Reykjalundur. Árið 1946 hófst smíði aðalbyggingar og var hún tekin í notkun 1949. Við það batnaði aðstaða vistmanna og starfsfólks til muna þar sem hægt var að flytja ýmsa starfsemi sem verið hafði í bröggunum inn í húsið og einnig var hægt að fjölga vistmönnum um helming. Litlu síðar var hafist handa við byggingu á vinnuskála fyrir starfsemi verkstæðanna.

Ráðning starfsfólks

Árið 1945 var Oddur Ólafsson læknir á Vífilsstöðum ráðinn fyrsti yfirlæknir og forstöðumaður Reykjalundar. Valgerður Helgadóttir var ráðin fyrsta yfirhjúkrunarkona og ennfremur hóf störf margt annað gott fólk en berklaveikin hafði á einn eða annan hátt haft áhrif á líf margra þeirra.

Happdrætti SÍBS

Á árunum 1945 -1950 var efnt til nokkurra skyndihappdrætta sem allgóður hagnaður varð af. Árið 1949 voru samþykkt á Alþingi lög um vöruhappdrætti SÍBS en það hefur frá upphafi verið hornsteinn byggingaframkvæmda á Reykjalundi.

Rekstur verkstæðanna

Fyrstu árin voru verkstæðin þrjú. Trésmíðaverkstæði þar sem aðallega voru búin til leikföng og skólahúsgögn. Járnsmíðaverkstæði þar sem smíðaðir voru stólar, barnarúm og sjúkrarúm, bakpokagrindur o.fl. Á saumastofunni voru m.a. saumaðir kjólar, gluggatjöld og teppi.

Á verkstæðunum var einnig unnið við bókband, gerð lampaskerma o.fl. En upp úr 1950 var plastiðjunni komið á fót og fljótlega varð hún aðalatvinnugreinin á verkstæðunum. Árið 1956 hófst samstarf LEGO fyrirtækisins í Danmörku og Reykjalundar. Til ársins 1977 var hluti hinna vinsælu LEGO kubba framleiddur á Reykjalundi og voru þeir fyrstu árin nefndir "SÍBS kubbar." Söludeild Reykjalundar sá um innflutning og dreifingu á LEGO kubbum eftir að framleiðslu þeirra var hætt á Reykjalundi.

 Í plastiðjunni voru á árum áður framleidd plastleikföng sem nutu mikilla vinsælda. Fram til þess tíma að iðnaðardeildir á Reykjalundi voru seldar á árinu 2004 voru plastvatnsrör, plastfilma og plastumbúðir undir mjólkurvörur og málningarvörur aðalframleiðsla plastiðjunnar.

Iðnskólinn á Reykjalundi

Frá upphafi fengu vistmenn nokkra fræðslu í iðngreinum en árið 1949 var stofnaður iðnskóli á Reykjalundi og var hann starfræktur til ársins 1965. Skólinn var talinn deild í Iðnskólanum í Reykjavík til ársins 1958 en varð þá sjálfstæður iðnskóli. Kennslan var að mestu í höndum vistmanna staðarins en kennarar komu einnig frá Iðnskólanum í Reykjavík í sérhæfðum greinum eins og teikningu. Nemendum á Reykjalundi var gefinn kostur á að ljúka náminu á tveimur vetrum. Sumir hófu námið hér en luku við það í Iðnskólanum í Reykjavík.

Reksturinn


Reykjalundur þróast í alhliða endurhæfingarmiðstöð

Fyrstu 15 árin dvöldu aðeins berklasjúklingar á Reykjalundi en um 1960 þegar berklaveikin fór að láta undan síga varð ljóst að ekki væri lengur þörf á endurhæfingu fyrir þennan sjúklingahóp í sama mæli og áður. Á næstu árum breyttist starfsgrundvöllur Reykjalundar og áhersla í endurhæfingu varð fjölbreyttari. Reykjalundur breyttist í alhliða endurhæfingarmiðstöð.

Um árbil hafa hjartasjúklingar og lungnasjúklingar, ásamt fleiri sjúklingahópum, sótt endurhæfingu á Reykjalund. Um 1970 kostaði Geðvernd hluta byggingarframkvæmda á Reykjalundi og síðan hafa sjúklingar með geðræn vandamál átt aðgang að endurhæfingu þar. Vegna aukins framboðs á þjálfun og markvissari skipulagningu endurhæfingarinnar fjölgaði vistmönnum til muna og dvalartími sjúklinga styttist.

Árið 1963 hóf sjúkraþjálfunardeild starfsemi og 1970 tók til starfa iðjuþjálfunardeild. Í tengslum við sjúkraþjálfunardeildina voru ráðnir til starfa íþróttakennarar og starfsemi heilsusports hófst. Þá er átt við notkun hvers kyns íþrótta í endurhæfingarskyni. Einnig tók til starfa hjarta-og lungnarannsóknarstofa auk blóðrannsóknarstofu og röntgenrannsóknarstofu.

Nú skiptist endurhæfingin í átta svið: Hjartasvið, lungnasvið, taugasvið, geðsvið, gigtarsvið, hæfingarsvið, næringarsvið og verkjasvið. Innan sviðanna er teymisvinna fagstéttanna lögð til grundvallar endurhæfingunni. Teymin eru þverfaglegir vinnuhópar. Markmiðið með endurhæfingu er að sjúklingurinn nái aftur eins góðri líkamlegri, andlegri og félagslegri færni og kostur er. Meðferðaráætlunin er sniðin eftir þörfum hvers og eins og getur verið bæði í formi hópmeðferðar og einstaklingsmeðferðar. Mikil áhersla er lögð á fræðslu til sjúklinga og það undirstrikað að heilbrigðir lífshættir stuðla að góðri heilsu.