Sjálfsvörn

Saga félagsins

Sjálfsvörn, Reykjalundardeild SÍBS, var stofnuð sem félag vistmanna á Reykjalundi í 13. febrúar árið 1945 og hefur starfað síðan.

Mikil breyting hefur verið á starfi deildarinnar í gegnum tíðina í takt við þróun starfsins á Reykjalundi. Í dag eru meðlimir rúmlega tvö hundruð, bæði fólk sem hefur verið í meðferð á Reykjalundi, aðstandendur þeirra og starfsfólk.

Ef gluggað er í heimildir, svo sem fundargerðir félagsins, má sjá að í upphafi stóð það vörð um hagsmuni þeirra sem dvöldu á Reykjalundi, enda bjó fólk þar stundum árum saman. Stofnuð var skemmtinefnd sem stóð fyrir kvöldvökum og margvíslegri skemmtun og mikill metnaður var lagður í að bjóða upp á góða afþreyingu, svo sem að  fá vinsæla skemmtikrafta til að koma, haldnar kvikmyndasýningar og fleira.

Starfsemin og gjafir

Nú býr fólk ekki lengur á staðnum og allar aðstæður gerbreyttar frá því sem var og því er lögð meiri áhersla á að laga umhverfi og bæta aðbúnað á Reykjalundi, sem dæmi má nefna að deildin tók þátt í kostnaði við að laga gangstéttir við hús Reykjalundar, keypti ferðasúrefnissíu sem nýtist sjúklingum sem þurfa að nota súrefni utandyra, endurnýjun  báta og búnaðar Reykjalundar við Hafravatn, endurnýjaðir hægindastólar í fræðsluherbergi iðjuþjálfunar. Einnig vinnur  deildin  að stefnumálum í samræmi við lög SÍBS.

Ekkert félagsgjald - kaupa happdrættismiða í Reykjalundarumboðinu

Ekkert árgjald hefur verið í félaginu en það fær greiðslur frá SÍBS af seldum happdrættismiðum í Reykjalundarumboðinu. Miðana er hægt að kaupa í afgreiðslu Reykjalundar eða á netinu https://sibs.is/happdraetti-sibs/, ef keypt er á netinu eða annarsstaðar þarf að taka fram að fólk vilji vera í Reykjalundarumboðinu.

Hægt er að ganga í félagið með því að senda póst á reykjalundur[hjá]reykjalundur.is, þar þarf að koma fram nafn, kennitala, heimilisfang og netfang.

Stjórn 2022
  • Maren Ósk Sveinbjörnsdóttir, formaður
  • Ásta Margrét Sigfúsdóttir
  • Hildur Ágústsdóttir, gjaldkeri
  • Þorbjörg Oddgeirsdóttir

Lög Sjálfsvarnar (pdf)