Gæðastefna
Tilgangur
Gæðastefnan er grunnur að gæða- og umbótastarfi á Reykjalundi. Henni er ætlað að tryggja að þjónusta við sjúklinga og aðstandendur sé fagleg, örugg og árangursrík í samræmi við þær kröfur sem gerðar eru til heilbrigðisþjónustu og endurhæfingar á Íslandi. Hún á einnig að stuðla að faglegri þróun, vellíðan og góðum samskiptum starfsfólks og þeirra aðila sem koma að starfsemi Reykjalundar.
Umfang
Gæðastefnan nær yfir alla starfsemi Reykjalundar. Hún á við alla starfsmenn, stjórnendur og starfsstöðvar á Reykjalundi sem og aðra aðila sem koma að starfsemi stofnunarinnar.
Markmið
- Reykjalundur veiti endurhæfingu samkvæmt bestu þekkingu á hverjum tíma. Tryggt sé að þjónusta við sjúklinga og aðstandendur sé í samræmi við kröfur sem gerðar eru til heilbrigðisþjónustu og endurhæfingar á Íslandi.
- Endurhæfing byggir á heildrænni þverfaglegri teymisvinnu sem miði að því að efla heilsu, færni, líðan og lífsgæði.
- Endurhæfing byggir á einstaklings- og árangursmiðaðri nálgun samkvæmt viðurkenndum klínískum leiðbeiningum.
- Þjónustan sé notendamiðuð. Virðing sé viðhöfð fyrir þörfum og væntingum skjólstæðinga þar sem þeim er tryggð virk þátttaka í eigin meðferð.
- Tryggt sé jafnt aðgengi að þjónustu í samræmi við rétt sjúklings óháð búsetu, efnahag, kynferði, kynþætti, trú, tungumáli og stöðu að öðru leyti. Úrvinnsla biðlista og ferla byggir á þörf fyrir þverfaglega nálgun í endurhæfingu.
- Verndun persónuupplýsinga sé tryggð sbr. lög um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.
- Þjónustuferli séu skýr, samræmd og taki mið af þörfum sjúklinga og aðstandenda. Þjónusta sé tímasett í samræmi við gang sjúkdóms og viðeigandi inngrip í endurhæfingu.
- Gæðahandbók sé virk, notendavæn, aðgengileg öllu starfsfólki og endurskoðuð reglulega.
- Gæðavísar endurspegli þjónustu og starfsemi Reykjalundar. Að þeir taki mið af skipulagi, ferlum og árangri og séu nýttir í samræmi við reglugerð um notkun gæðavísa í heilbrigðisþjónustu.
- Starfsmenn séu virkir þátttakendur í gæða- og umbótastarfi þar sem unnið sé markvisst að umbótum til að bæta þjónustu, öryggi og árangur.
- Stuðlað sé að virkri öryggismenningu og atvikaskráningu. Brugðist sé kerfisbundið við atvikum og frávikum í starfseminni.
- Stuðlað sé að virðingu og gagnsæi í samskiptum. Traust og virðing ríki milli starfsfólks, sjúklinga og aðstandenda sbr. samskiptasáttmála Reykjalundar og siðareglur fagstétta.
- Stuðlað sé að árangursríku samstarfi við þjónustuaðila skjólstæðinga í nærumhverfi.
- Stuðlað sé að stöðugri þekkingaröflun, nýsköpun og þróun á sviði endurhæfingar með samstarfi við háskólasamfélagið. Fagþekking og starfsþróun starfsmanna sé efld með sí- og endurmenntun.
- Tryggt sé að umhverfi Reykjalundar sé heilsusamlegt og öruggt. Að húsnæði, aðstaða og búnaður uppfylli skilgreindar þarfir, kröfur og staðla í heilbrigðisþjónustu.
- Stuðlað sé að umhverfisvænum lausnum í allri starfsemi Reykjalundar þar sem neikvæðum umhverfisáhrifum er haldið í lágmarki.
Ábyrgð
- Forstjóri, framkvæmdastjórn, gæðaráð og gæðastjórar bera ábyrgð á gæðastefnu.
- Stjórnendur og starfsmenn bera ábyrgð á því að starfa samkvæmt gæðastefnu og gæðahandbók Reykjalundar.
- Gæðastjórar bera ábyrgð á því að gæðastefnan sé sýnileg starfsfólki og að gæðahandbók sé aðgengileg, notendavæn og uppfærð reglulega.