04.09.2020

Föstudagsmolar 4. september 2020

Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,

Hér að neðan er að finna föstudagsmola dagsins en gestahöfundur í dag er Inga Hrefna Jónsdóttir, forstöðusálfræðingur.
Njótið vel og góða helgi!

Bestu kveðjur,
Pétur Magnússon, forstjóri


Komið þið sæl.

Í upphafi langar mig að þakka Pétri forstjóra fyrir áhugaverða og upplýsandi pistla um starfsemina á Reykjalundi. Það er ánægjulegt að fá að vera gestahöfundur í dag.

Af stórsjó og öldugangi
Eins og þið kannski munið fór Reykjalundarskútan næstum á hvolf fyrir um ári síðan í miklum öldugangi. Brotsjór gekk yfir, sem kastaði skipstjóranum og stýrimanninum fyrir borð. Þetta voru erfið átök sem tóku á alla og engin gúrkutíð hjá fjölmiðlum. En sem betur fer lítur út fyrir að öldurnar hafi lægt og stefnan hefur verið tekin í átt að bjartari tíð. Starfsstjórnin sem tók við stýrinu stóð í ströngu við að rétta skútuna af og þegar það hafði tekist skall á stórhríð kórónuveirunnar sem auðveldaði ekki siglinguna. Útgerðin skipti um stjórn, nýr skipstjóri var ráðinn og með honum í brúnni eru nú nýir yfirmenn með dýrmæta reynslu. Nú stendur yfir jólahreingerning á skútunni. Búið er að mynda vinnuhópa sem eiga að skrúbba og bóna og heyrst hefur að yfirstjórnin vinni að því að endurnýja innréttingar og endurraða áhöfninni. Ég hef fulla trú á að núna, með góðum mannskap á dekki og við stjórnvölinn, muni Reykjalundarskútan sigla áfram leið þverfaglegrar endurhæfingar hringinn í kringum landið til að þjónusta fólkið í landinu.

Fortíðin og framtíðin
Í ár eru tuttugu ár frá því fyrsti sálfræðingurinn (undirrituð) var ráðinn til Reykjalundar en þeir sem hafa áhuga á sögu Sálfræðiþjónustunnar á Reykjalundi geta kíkt á heimasíðuna.
Claudia Georgsdóttir taugasálfræðingur lét af störfum á árinu eftir 8 ár hjá okkur og hefur snúið sér að húsasmíðum, andarungauppeldi og fleiri skemmtilegum hlutum við Hafravatnið þar sem meðfylgjandi mynd var tekin af okkur sálfræðingunum á vorfundi heima hjá henni.
Með nýju skipuriti er orðin til ný staða í framkvæmdastjórn, framkvæmdastjóri þjálfunar og ráðgjafar. Við sálfræðingarnir bjóðum Óskar Jón Helgason velkominn til starfa aftur og nú í þessa nýju stöðu sem verður spennandi að sjá hvernig þróast.

Haustið
Nú brestur á sá tími ársins þegar skólarnir fyllast aftur og nemar mæta á Reykjalund. Við höfum verið mjög heppin með sálfræðinema í gegnum tíðina. Þeir hafa kynnst starfseminni hér og tekið virkan þátt,  bæði með klínískri vinnu í starfsþjálfun og með vísindarannsóknum sem hægt er að kynna sér á heimasíðu Reykjalundar undir Vísindi.
HAM-hóparnir okkar eru líka að fara af stað aftur eftir sumarfrí en dagskrá þeirra er á heimasíðunni – nema hvað – sem og dagskrá geðheilsuskólans sem er fræðsla til skjólstæðinga einnig opin öllum þvert á svið. Efni sem við notum á HAM-námskeiðunum er til sölu í vefverslun Reykjalundar og svo má ekki gleyma að HAM-bókin er líka opin öllum og aðgengileg á netinu en þar er allur texti, öll verkefni og hægt að hlaða niður hljóðbókinni. Núvitundaræfingarnar sem eru notaðar á núvitundarnámskeiðunum eru einnig öllum aðgengilegar á www.fifill.is en gerð var rannsókn á árangri af þeim námskeiðum og von er á birtingu vísindagreinar í erlendu tímariti „fljótlega“.
ACT-ið er nýjasta sálfræðimeðferðarformið hér í húsi, við þrálátum verkjum. ACT stendur fyrir Acceptance and commitment therapy og byggir á hugmyndafræði hugrænnar atferlismeðferðar og atferlisgreiningar. Þetta er gagnreynt meðferðarform þar sem lögð er áhersla á að gangast við stöðu mála (acceptance) og tileinka sér núvitund í bland við breytingar á hegðun.
Svo er spurning hvort HAM við Post-Covid verði næsta þróunarverkefnið!

Bestu kveðjur og góða helgi.
Inga Hrefna Jónsdóttir, forstöðusálfræðingur

Til baka