03.05.2024

Föstudagsmolar forstjóra 3. maí 2024.

Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,

Starfsmannafélagið okkar.
Í síðustu viku fór fram aðalfundur starfamannfélagsins okkar. Þar kynnti stjórn félagsins blómlega og fjölbreytta starfsemi á síðasta starfsári auk hefðbundinna aðalfundarstarfa. Í stjórn starfsmannafélagsins okkar sitja nú: Erla Ólafsdóttir sjúkraþjálfari sem er formaður, Ásdís Guðjónsdóttir sjúkraþjálfari, Helena Byron Magnúsdóttir sjúkraliði, Þorbjörg Oddgeirsdóttir sjúkraliði og Jónína Helgadóttir iðjuþjálfi. Myndin með molunum í dag er einmitt af stjórninni á aðalfundinum ásamt undirrituðum en Helenu í stjórninni vantar á myndina.
Það þarf ekki að fjölyrða um mikilvægi öflugs starfsmannafélags til að styðja við góðan og áhugaverðan vinnustað og við erum sannarlega heppin með okkar fólk. Ég vil nota þetta tækifæri og þakka fráfarandi stjórnarfólki sem og nýjum fulltrúum í stjórn, fyrir þeirra flottu störf í þágu starfsfólks okkar á Reykjalundi og hlakka til að taka þátt í starfinu framundan.

Hjólað í vinnuna framundan, upphitun á mánudag.
Í næstu viku hefst verkefnið Hjólað í vinnuna. Við hér á Reykjalundi ætlum að taka þetta verkefni með trompi enda mikið af hjólaáhugafólki og hreyfi-glöðum einstaklingum í okkar flotta starfsmannahópi. Þrátt fyrir að átakið hefjist ekki formlega fyrr en á miðvikudaginn ætlum við að hita vel upp áður. Í hádeginu á mánudag hefur Hjalti Kristjánsson íþróttafræðingur tekið að sér að stýra fordæmalausri hjóla-þrautakeppni milli hópa starfsfólks. Liðskipan hefur þegar verið kynnt og vil ég nota þetta tækifæri og hvetja sem allra flest ykkar til þátttöku, bæði í hátíðinni á mánudag og svo í verkefninu sjálfu. Áfram Reykjalundur!

Vorfundur Landsamband heilbrigðisstofnanna.
Í gær tók ég þátt í vorfundi Landssambands heilbrigðisstofnanna (LH) en sá fundur er hugsaður fyrir framkvæmdastjórnir heilbrigðisstofnanna og var fjölsóttur. Innan LH eru heilbrigðisstofnanir sem falla undir lög um heilbrigðisþjónustu. Hlutverk LH er meðal annars að efla samstarf heilbrigðisstofnana, standa vörð um hagsmuni þeirra og hlutverk, ásamt því að vera í forsvari fyrir stofnanir eftir því sem við á og lög heimila.
Á dagská þessa vorfundar voru ýmis fróðleg mál en megið þemað voru kjaramál og mönnunarviðmið þar sem ýmsir aðilar voru með innlegg.
Samstarf sem þetta er mjög mikilvæg til að auka og styrkja gagnkvæman skilning og samstarf, ekki síst fyrir aðila eins og okkur hér á Reykjalundi. Það er einnig í anda niðurstöðu stefnumótunar okkar frá síðasta hausti að auka samskipti og samstarf við aðrar heilbrigðisstofnanir.

Að lokum vil ég óska sjúkraþjálfurum okkar til hamingju með daginn en í dag, 3. maí er dagur sjúkraþjálfunar.

Góða og gleðilega helgi!

Bestu kveðjur,
Pétur

 

Til baka