22.03.2024

Föstudagsmolar

Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,Frábær árshátíð!

Það er ekki annað hægt en að byrja þessa föstudagsmola á að tala um árshátíð Reykjalundar sem fram fór um síðustu helgi. Árshátíðin fór fram í Stykkishólmi í þetta skiptið og margir tóku alla helgina í verkefnið. Þemað var kúrekar og sveitin og boðið var upp á nokkrar línudansæfingar í aðdragandanum. 
Það var hreint magnað að fá að taka þátt í þessari skemmtun enda ótrúlegt hæfileikafólk að finna hér í herbúðum okkar starfsfólks. Veislustjórn og skemmtiatriði heimatilbúin, hvert öðru betra og mikið fjör. Á hverju ári eru veitt verðlaun fyrir besta skemmtiatriðið og er verðlaunagripurinn „gullhornið“ sjálft sem er eftirsóttur farandgripur. Að þessu sinni voru það sjúkraþjálfun og íþróttafræðingar sem fengu gullhornið fyrir glæsilegt línudansatriði. Það er vel við hæfi að myndin með molunum sé frá árshátíðinni en hún sýnir hluta sigurhópsins.
Það er ekki sjálfgefið að jafn viðamikill atburður og árshátíðin okkar gangi vel og hnökralaust fyrir sér. Því vil ég enn og aftur þakka árshátíðarnefndinni okkar fyrir sín flottu störf en í henni voru Kristín sjúkraþjálfari, Thelma Rún næringarfræðingur, Gunnhildur og Jórunn sálfræðingar og Sóley læknir. Jafnframt vil ég svo þakka ykkur öllum sem tókuð þátt í þessari glæsilegu árshátíð og gerðuð það að verkum að hún varð jafn vel heppnuð og raun ber vitni.

Viltu hlaupa fyrir Hollvini og Reykjalund?

 Nýlega var opnað fyrir skráningu í Reykjavíkurmaraþon en þetta fjölmennasta hlaup landsins fer fram 24. ágúst. Rétt eins og áður geta hlauparar safnað áheitum á hlaup sitt í þágu góðgerðarfélaga. Eitt af góðgerðarfélögunum sem hlauparar geta safnað fyrir eru Hollvinasamtök Reykjalundar. Samtökin voru stofnuð af hópi fólks sem notið hefur endurhæfingar á Reykjalundi ásamt velunnurum með hlýjar taugar til starfseminnar á staðnum. Ég vil nota þetta tækifæri og hvetja hlaupara sem ætla að safna áheitum að íhuga hvort Hollvinasamtök Reykjalundar gætu verið spennandi kostur en allt sem Hollvinasamtökin safna í starfi sínu fer óskipt til kaupa á mikilvægum tækjum og búnaði fyrir starfsemina hér á Reykjalundi. Nánari upplýsingar er að finna hér:
https://www.rmi.is/hlaupastyrkur/godgerdamal/527-hollvinasamtok-reykjalundar

Árlegur fundur með Vísindaráði og rannsóknarstjóra.

Í vikunni funduðum við í framkvæmdastjórn með rannsóknastjóra Reykjalundar og vísindaráði. Þriggja manna vísindaráð er hér á Reykjalundi, skipað af framkvæmdastjórn. Vísindaráð skal vera þverfaglegt og jafnræðis gætt milli faghópa við skipan í ráðið. Í Vísindaráði Reykjalundar þennan veturinn hafa setið Inga Hrefna Jónsdóttir sálfræðingur (formaður), Sóley Guðrún Þráinsdóttir læknir (verðandi formaður) og Kristín Hólmgeirsdóttir sjúkraþjálfari. Vísindaráði til halds og traust er Marta Guðjónsdóttir, rannsóknarstjóri. 
Hlutverk vísindaráðs er:
1. Að vera stjórn og stjórnendum Reykjalundar ráðgefandi um vísindastefnu stofnunarinnar
2. Að vinna náið með rannsóknastjóra að framgangi vísindastefnunnar.
3. Að vinna að formlegum tengslum og samstarfi við aðrar stofnanir, innanlands og utan.
4. Að leggja faglegt mat á allar umsóknir um styrki úr vísindasjóði og skila áliti til framkvæmdastjórnar.
5. Að gæta samræmis í þeim matstækjum sem notuð eru á stofnuninni og vera ráðgefandi um stöðluð vinnubrögð við beitingu þeirra.
Á fundinum var farið yfir starfsemina í vetur eins og til dæmis vísindadaginn okkar, helstu áskoranir og hlutverk vísinda og rannsókna í stefnu og starfinu til framtíðar.
Við hér á Reykjalundi erum stolt af vísindastarfinu okkar og munum á næstunni auglýsa eftir nýjum aðila til að taka sæti í vísindaráði sem er að losna.

Þó þrír vinnudagar séu í næstu viku er starfsemin með minna móti eins og oft vill gerast í dymbilvikunni.
Ég vil því að lokum fá að nota þetta tækifæri og óska ykkur öllum gæfuríkra og gleðilegra páska og vona að þið njótið vel.

Bestu kveðjur,
Pétur

 

Til baka