08.03.2024

Föstudagsmolar forstjóra 8. mars 2024

Evrópudagur talþjálfunar.

Á miðvikudaginn var evrópudagur talþjálfunar og var yfirskrift dagsins í ár teymisvinna og mikilvægi þess að vinna heildrænt í teymi með öðrum starfstéttum. Hjá okkur á Reykjalundi starfa tveir talmeinafræðingar og nýtast þeir sannarlega vel í því þverfaglega meðferðarstarfi heilbrigðisstétta sem hér fer fram.

Það er sannarlega ástæða til að óska talmeinafræðingum og okkur öllum til hamingju daginn.

 

Þakkir vegna ráðstefnudagsins.

Eins og fram hefur komið héldum við hér á Reykjalundi mjög vel heppnaða fræðsluráðstefnu fyrir heilbrigðisstarfsfók síðasta mánudag. Myndaspyrpa frá ráðstefnunni hefur þegar verið birt á facebook síðu Reykalundar  og langar mig að nota þetta tækifæri og þakka undirbúningsnefnd  ráðstefnunnar kærlega fyrir ekki síður en efnaskipta- og offituteyminu okkar. Þessir aðilar báru hitann og þungann að undirbúningnum og nokkrum fyrirlestranna sem voru hver öðrum betri. Ég er gríðarlega stoltur af okkar fólki!

Jafnframt vil ég þakka gestunum okkar úr hópi fyrirlesarasem komu inn í dagskránna utan Reykjalundar, þeir voru einnig mjög flottir og settu mikilvægan og áhugaverðan svip á ráðstefnuna. Að lokum vil ég þakka þeim tæplega tvöhundruð þátttakendum sem tóku þátt, kærlega fyrir komuna.

Ætlunin er að ráðstefnur sem þessar verði árlegur viðburður á vegum Reykjalundar svo undirbúningur við næstu ráðstefnu hefst fljótlega.

 

Úthlutað úr Oddssjóði.

Á síðasta ári var skipulagsskrá Oddssjóðs uppfærð og aðlöguð að nútíma aðstæðum. Meðal annars voru gerðar skýrari reglur um úthlutun þannig að fjármunir sjóðsins nýtist betur, starfsemi Reykjalundar til heilla. Í nýja stjórn sjóðsins voru skipuð Edda Björk Skúladóttir úr Fagráði Reykjalundar, Gunnar Ármannsson fulltrúi stjórnar Reykjalundar endurhæfingar ehf. og forstjóri Reykjalundar.

Í nýrri skipulagsskrá segir:

„Tilgangur sjóðsins er annars vegar að efla fræðslu í þágu starfseminnar á Reykjalundi og hins vegar að veita fé til kaupa á tækjum og búnaði í samvinnu við Hollvinasamtök Reykjalundar til notkunar við endurhæfingu á Reykjalundi. Einungis starfsfólk Reykjalundar endurhæfingar ehf. getur sótt um framlög úr sjóðnum.“

Auglýst var eftir umsóknum og bárust sex umsóknir um styrki að vermæti rúmlega tvær milljónir króna. Til úthlutunar voru hins vegar um fimmhundruð þúsund krónur og fengu þrjú verkefni styrk: Uppfærsla á tækinu Fitligh sem notað er til þjálfunar í sjúkraþjálfun, Græn iðja sem er nýtt þjálfunarúrræði á vegum iðjuþjálfunar ogTvöfaldur kajak með árumsem nýtist til þjálfunar á Hafravatni á vegum íþróttafræðinga og fleiri. Meðfylgjandi mynd var tekin við formlega úthlutun úr sjóðnum í vikunni og sýnir sjóðstjórn ásamt styrkþegum.

 

Um leið og ég sendi ykkur öllum góðar óskir um góða helgi minni ég á aðalfund Hollvinasamtaka Reykjalundar sem fram fer kl 14 á morgun, laugardaginn 9. mars. Hollvinir eru mikilvægur bakhjarl starfseminnar. Hollvinir eru hvattir til að mæta og nýir félagar boðnir velkomnir.

 

Bestu kveðjur,

Pétur

Til baka