01.03.2024

Vinnum saman að bættri meðferð einstaklinga með offitu.

Í gær birtist í Morgunblaðinu mjög áhugaverð grein eftir Guðrúnu Þuríði Höskuldsdóttur og Hildi Thors, lækna í efnaskipta- og offituteymi okkar hér á Reykjalundi. Greinin fylgir hér:


Vinnum saman að bættri meðferð einstaklinga með offitu.

Offita er flókinn sjúkdómur sem á sér margar orsakir. Lengi var fjallað um líkamann eins og vél sem fær eldsneyti til brennslu og lagt út frá því að ef einstaklingur borðaði minna (minna eldsneyti) og hreyfði sig meira (meiri brennsla) myndi hann léttast. Þekking okkar á offitu er mun betri nú og vitum við að þessi nálgun er ofureinföldun á flóknu vandamáli. 
Algengi offitu hefur aukist mjög í vestrænum löndum síðustu áratugi, meðal annars á Íslandi. Er nú talið að tæp 30% fullorðinna og 7% barna séu með offitu. Aukningin á síðustu áratugum segir mikið til um hvernig þjóðfélag okkar hefur breyst. Með aukinni tæknivæðingu hafa störf okkar orðið minna líkamlega krefjandi, við eigum fleiri bíla og hreyfum okkur minna til daglegra verka. Mataræði okkar hefur mikið breyst og matvæli meira unnin í verksmiðjum heldur en áður var. Við gefum okkur minni tíma til matseldar og þess að njóta matar okkar. Streitan er meiri en áður og svefnvenjur hafa breyst. Streitu fylgja breytingar á hormónum og efnaskiptum í líkamanum sem ýtir undir fitusöfnun. Við höfum einnig gert okkur betur grein fyrir hvernig andleg líðan getur haft áhrif á holdafar. Vitundarvakning hefur orðið um áhrif áfalla, sérstaklega alvarlegra áfalla í æsku, á heilsufar síðar á ævinni. Þannig má segja að offita sé birtingarmynd breyttra hátta. 

En hvernig getum við tekist á við þennan samfélagslega sjúkdóm sem veldur mörgum alvarlegum heilsubresti? Það getur verið erfitt að snúa hjólum samfélagsins til baka, en við getum með betri meðvitund um okkur sjálf og okkar venjur reynt að spyrna við en til þess þarf oft aðstoð. 
Meðferð við offitu byggist á mörgum þáttum og þarf að vera til lengri tíma. Fyrsta meðferð lýtur að því að átta sig á sínum venjum og sjá hverju er hægt að breyta í flóknum veruleika daglegs lífs. Það þarf að æfa sig í að vera meðvitaður um venjur, tilfinningar og hugsanir. Á síðustu árum hefur heilsugæslan unnið að því að styrkja meðferð við offitu eins og við öðrum langvinnum sjúkdómum. Víða eru lífstílsmóttökur sem veita góðan stuðning við grunnmeðferð. Margir hafa þó óraunhæf markmið um þyngdartap, bæði einstaklingar með offitu en einnig heilbrigðisstarfsfólk, sem geta ýtt undir streitu og vanlíðan. Þyngdarstöðugleiki getur stundum frekar verið viðeigandi markmið. Fyrsta þrep meðferðar er því að líða betur, ná góðu jafnvægi í daglegu lífi og betri heilsu.

Þegar um alvarlegri offitusjúkdóm er að ræða eða ef einstaklingur er með alvarlega fylgisjúkdóma getur þurft frekari meðferð með lyfjum eða skurðaðgerðum. Slíka meðferð þarf ávallt að undirbyggja með vinnu með daglegar venjur og veita stuðning til lengri tíma. Lyfjameðferð við offitu hefur fleygt fram á síðustu árum en er kostnaðarsöm eins og oft er um ný lyf. Offita er langvinnur sjúkdómur og getur meðferð því verið ævilöng. Efnaskiptaskurðaðgerðir hafa á síðustu árum sýnt að hægt er að fá bætt heilsufar til lengri tíma ef vel tekst til með góðum undirbúningi og mikilli eftirfylgni. 

Einstaklingar með offitu þurfa aðgang að viðeigandi úrræðum á mismunandi stigum sjúkdómsins. Því þarf að tryggja samfellu í meðferð þeirra með samvinnu heilsugæslunnar og annarra stiga þjónustu. Þetta tíðkast almennt í meðhöndlun langvinnra sjúkdóma og ætti líka að eiga við í meðferð offitu. Einnig er þörf á fræðslu heilbrigðisstarfsfólks til að tryggja að einstaklingar með offitu hljóti faglega meðferð sem byggist á klínískum leiðbeiningum og veitt er af virðingu og skilningi. 
Síðustu ár hefur þekking á offitusjúkdómi tekið miklum framförum og orðið mikil þróun í meðferð. Samfélagið okkar hefur á sama tíma byrjað að viðurkenna sjúkdóminn og fordómar eru vonandi minnkandi en nauðsynlegt að vinna með þá áfram. Heilsugæslan hefur styrkt sig í að veita einstaklingum með offitusjúkdóm grunnmeðferð en áfram þarf að styrkja úrræði til að veita flóknari og sérhæfðari meðferð. Við hvetjum heilbrigðisstarfsfólk til að mæta á fræðsluráðstefnu Reykjalundar Offita – Fagleg nálgun á samfélagstengdum sjúkdómi á Alþjóðadegi offitu, 4. mars 2024. Vinnum saman að því að bæta meðferð einstaklinga með offitu.

 

Til baka