01.03.2024

Föstudagsmolar forstjóra 1. mars 2024 - Gestahöfundur er Anný Lára Emilsdóttir framkvæmdastjóri Hleinar.

Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,

Gestahöfundur föstudagsmolanna í dag er Anný Lára Emilsdóttir framkvæmdastjóri Hleinar, en hjá þeim er alltaf líf og fjör og gaman að heyra helstu fréttir þaðan.

Svo vil ég minna á fræðsluráðstefnu okkar fyrir heilbrigðisstarfsfólk sem haldin verður nú á mánudaginn á Alþjóðadegi offitu. Áhuginn er gríðarlega mikill og salurinn er orðinn troðfullur, 150 manns, sem er miklu meiri áhugi en við bjuggust við.

Góða helgi.

Bestu kveðjur,
PéturFöstudagsmolar 1. mars 2024 –  Hlein hjúkrunarsambýli ehf. lítur dagsins ljós.

Þann 1. febrúar síðastliðinn var rekstur Hleinar sambýlis formlega færður yfir í Hlein hjúkrunarsambýli ehf. sem er óhagnaðardrifið einkahlutafélag í100% eigu SÍBS. Yfirfærslan er liður í endurskipulagningu félaga innan samstæðu SÍBS í átt að sjálfstæðum lögaðilum með sérstaka stjórn yfir hverjum um sig. Árið 2023 var notað í aðlögun að nýja skipulaginu og í upphafi þess árs var skipuð formleg stjórn félagsins af SÍBS sem í sitja tveir aðalmenn og einn varamaður. Anna Stefánsdóttir er formaður stjórnar, Haraldur Sverrisson er aðalmaður og Pétur Magnússon varamaður. Þá var undirrituð ráðin í æðstu stjórnendastöðu Hleinar sem framkvæmdastjóri.

Rekstur Hleinar byggir á sérstökum þjónustusamningi við Sjúkratryggingar Íslands og er þessi samningur algerlega aðskilinn samningi Reykjalundar endurhæfingar ehf. um þverfaglega endurhæfingarþjónustu. Hlein og Reykjalundur endurhæfing ehf. hafa svo gert sín á milli vel skilgreindan þjónustusamning þar sem þjónusta Reykjalundar endurhæfingar ehf. við Hlein er listuð upp og kostnaðargreind. Markmiðið er að rétt verð sé greitt fyrir þjónustu Reykalundar endurhæfingar ehf., þannig að íbúar Hleinar séu ekki hlunnfarnir um þjónustu þar sem greiðslur til Reykjalundar endurhæfingar ehf.  væru of háar, né heldur að íbúar Hleinar séu að fá niðurgreiðslu á sinni þjónustu úr samningi Reykjalundar endurhæfingar ehf. um þverfaglega endurhæfingu. Samstarf Hleinar og Reykjalundar endurhæfingar ehf. gengur mjög vel og lítum við á Hlein svo á að Reykjalundur sé stóra systir okkar. 
Af þessu tilefni fékk Hjúkrunarsambýlið Hlein sitt eigið einkennismerki. Merkið er hannað af velunnara okkar hjá auglýsingastofunni Hér og nú og erum við Hleinarar afar ánægð með það. Fyrir þá sem ekki vita þá er ein af merkingum orðsins hlein hallandi klöpp, einkum í flæðarmáli. Af sama toga er sagnorðið hleina sem merkir að hvíla eða vera í ró sem og að halla að og styðja. Táknið vísar því til klettanna sem íbúar Hleinar geta hallað sér að í lífsins ólgusjó.

Af daglegu lífi af Hlein er allt gott að frétta. Íbúar mæta í sína vinnu í næstum því hvaða veðri sem er. Festa sig stundum í skafli á rafhjólastólunum á stígnum á milli Hleinar og Reykjalundar, eru mokaðir út af starfsmönnum og keyra jafnvel beint út í skafl aftur til að fá meira fjör. Borða skammtinn á bolludaginn og blikka svo starfsfólk til að fá aukaskammt sem er samþykkt upp að ákveðnu marki. Fara saman með ferðaþjónustunni á bocciaæfingar í íþróttahúsinu í Hátúni og gleðja gesti og gangandi með aulabröndurum ala Hleinar-style. Sumarráðningar eru á réttu róli en við erum svo gæfusöm á Hlein að skólafólkið okkar heldur lengi tryggð við okkur svo raskið verður minna en ella yfir sumartímann. Fyrirliggjandi verkefni íbúa Hleinar er að fara að skoða páskaeggjaúrvalið, sem eykst með hverju árinu og pressan eykst samhliða því að velja nú örugglega besta eggið. Stelpurnar á vinnustofunni aðstoða við valið og Ellý matráður fær nákvæm fyrirmæli fyrir búðarferðina. Það er einstakur andi sem hefur ríkt á Hlein frá stofnun sem vonandi verður um ókomin ár.

Anný Lára Emilsdóttir,
framkvæmdastjóri Hleinar

Til baka