23.02.2024

Föstudagsmolar forstjóra 23. febrúar 2024.

Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,

Mig langar að hefja þennan pistil á góðum kveðjum til félagsráðgjafanna okkar hér á Reykjalundi, en síðasta mánudag fagnaði Félagsráðgjafafélag Íslands 60 ára afmæli. Það hefur auðvitað margt gerst og breyst á þessum 60 árum en við stofnun félagsins voru aðeins fjórir félagsráðgjafar á Íslandi, færri en félagsráðgjafar Reykjalundar eru í dag. Það er því vel við hæfi að félagsráðgjafar Reykjalundar prýði myndina með molunum í dag en þær eru frá vinstri: Rakel María, Hanna Lára, Nadía, María og Ásta.

Stjórn starfsmannafélagsins okkar á sannarlega skilið góðar kveðjur og þakkir en í vikunni stóð starfsmannafélagið fyrir æsispennandi félagsvist meðal okkar starfsfólks. Þar komst ég til dæmis að því að mínir styrkleikar í því merka spili liggja í „nóló“ – það er að fá sem allra fæsta slagi hvort sem það er verið að spila nóló, grand eða eitthvað tromp.

Munið skráningu á fræðsluráðstefnu Reykjalundar, allt að fyllast.
Væntanlega hefur ekki farið fram hjá neinum hér á Reykjalundi að í tilefni af Alþjóðadegi offitu, 4. mars, býður Reykjalundur heilbrigðisstarfsfólki innan og utan Reykjalundar til fræðsluráðstefnunnar „Offita – Fagleg nálgun á samfélagstengdum sjúkdómi“ sem fram fer á Grand hóltel mánudaginn 4. mars kl 13-16.  Um 100 manns hafa þegar skráð sig til þátttöku sem er nánast fullur salur. Vil ég nota þetta tækifæri til að minna þá sem ætla að koma að skrá sig til leiks (ef það er ekki þegar búið) en þátttaka er án endurgjalds. Gestir eru beðnir um að tilkynna þátttöku fyrir fimmtudaginn 29. febrúar á netfangið reykjalundur@reykjalundur.is.

Aðalfundur Hollvinasamtaka Reykjalundar 9. mars.
Að lokum er ánægja að segja frá því að aðalfundur Hollvinasamtaka Reykjalundar verður haldinn í hátíðarsal Reykjalundar laugardaginn, 9. mars 2024, kl. 14:00. Á dagskrá verða auk venjulegra aðalfundarstafa stutt fræðsluerindi um stöðu húsnæðismála Reykjalundar og framtíðarsýn starfseminnar. Gaman er að segja frá því að á fundinum munu Hollvinir afhenda Reykjalundi glæsilega gjöf sem nýtist í starfsemina. Sjálfsagt er að geta þess að við stöndum í mikilli þakkarskuld við Hollvinarsamtökin en þau hafa á þeim 10 árum sem þau hafa starfað, gefið Reykjalundi tækjagjafir fyrir rúmlega 70 milljónir króna. Hollvinir eru hvattir til að mæta og nýir félagar velkomnir.

Um leið og ég sendi ykkur öllum góðar óskir um gleðilega helgi vil ég senda öllum konum góðar kveðjur í tilefni konudagsins á sunnudaginn ásamt því að minna konur í starfsmannahópi Reykjalundar á að sækja konudags-glaðning sinn inn i fundarherbergið Mosfell í hádeginu á mánudag.

Bestu kveðjur,
Pétur

Til baka