02.02.2024

Föstudagsmolar forstjóra 2. febrúar 2024 - Gestahöfundur er Tekla Hrund Karlsdóttir læknir.

Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,

Þá er febrúar runninn upp og nýja árið flýgur áfram. Febrúar er einmitt afmælismánuður Reykjalundar og í gær héldum við upp á afmælið með glæsibrag. Við sendum okkar bestu þakkir til starfsfólks í eldhúsinu fyrir afmælis-nautasteikina og starfsmannafélagsins fyrir frábæran línudanstíma.

Hér koma föstudagsmolar vikunnar en gestahöfundur í dag er Tekla Hrund Karlsdóttir læknir hér á Reykjalundi. Á fjölsóttu málþingi fyrir almenning á Læknadögum nú í janúar flutti hún áhugavert erindi sem nefndist „Í hvað fer þín orka“ og setti hún saman stuttan pistil upp úr því erindi fyrir okkur.

Ég vona að þið náið að njóta helgarinnar sem allra best!

Bestu kveðjur,
Pétur


Í hvað fer þín orka? Nú er ég ekki að tala um orkumálin á heimilinu heldur þína innri orku, orkuna sem knýr þig áfram?  Ég hef alltaf haft sérstakan áhuga á orku- og efnaskiptaheilsu, hvernig hún mótast af umhverfinu okkar.

Á Læknadögum í janúar fékk ég tækifæri til að taka þátt í málþingi fyrir almenning, þemað var áhrif umhverfis á heilsu.  Í dag ætla ég að gera mitt besta til að draga saman aðalatriðin.
Hugmyndafræðin er frekar einföld; Ef við skiljum og getum tekið tillit til grunnþarfa okkar, getum við bætt orkunýtingu (efnaskipti) líkamans! Heilbrigð efnaskipti gefa okkur meiri orku til að til afnota, viðhalda líkamlegum burðum  og góðri heilsu og vonandi njóta þess.

En hvað eru efnaskipti?
Efnaskipti líkamans spanna allt sem líkaminn þinn gerir, einkum hvernig líkaminn meðhöndlar og ráðstafar orkunni sem þú innbyrðir.
Efnaskiptaheilsan hefur svo úrslitaáhrif á líkamlegt hreysti og andlega líðan, á orkustig og hæfni til að takast á við þær áskoranir sem lífið hefur uppá að bjóða.
Þegar að við erum ung, eru efnaskiptin efnilegri, við erum alla jafna orkumeiri og höfum aukna burði til að takast á við (efnaskipta) áskoranir. En efnaskipta áskoranir eru í raun allar þær áskoranir sem að einhverju leyti kynnu að ógna þínum grunnþörfum, og þar með þínu öryggi!
Dæmi; skortur á nærandi næringu og stöðugu orku-framboði, skortur á ást, tengslum og tilgangi sem ógn að samfélagslegri stöðu þinni, skortur á líkamlegri virkni og styrk sem ógnar þínu frelsi, minnkar líkamlega seiglu, getu til að vernda þig og þína sem og almennri sjálfhjálpargetu, skortur á hreinu lofti eða vatni og ekki síst skortur á hvíld og endurheimt sem er forsenda orku og aðlögunarhæfni.

Hvar svo sem við erum stödd í heiminum eða á mannrófinu þá mótast hegðun (og heilsa) okkar fyrst og fremst af umhverfi okkar og þeim frumstæðu hvötum sem við höfum þróað með okkur! Frumstæðum hvötum sem hafa hingað til  tryggt að grunnþörfum okkar sé mætt, tryggt öryggi okkar og hámarkað líkurnar á að lifa af!
Í takt við náttúruna þróaðist lífveran, maðurinn, og er aðalverkefni hennar að halda sér á lífi! Hún býr í grunninn yfir mikilli seiglu og er fær um að aðlagast ótrúlegustu aðstæðum.
Þessi magnaða lífvera samanstendur af háþróuðum, samofnum og fínstilltum líkamlegum kerfum sem miða saman að því að tryggja grunnþarfir, bregðast við áskorunum og viðhalda líkamlegu og andlegu jafnvægi á meðan að þú getur hugsað um annað.

Einangrun var raunveruleg ógn og við þróuðum með okkur hvatir til að tengjast og tilheyra, að fá að upplifa tilgang og fá að leggja okkar af mörkum inn í það samfélag sem við búum í.

Til að auka skilvirkni lífverunnar geymir hver fruma svokallaða ,,líkamsklukku” sem ákvarðar tíma fyrir hámarksvirkni (orku), sem og tíma fyrir hvíld og endurheimt. Geislar sólarinnar gefa okkur ekki bara D vítamín, þeir setja taktinn, og móta dægurrytman!  Líkamsklukkan svarar einnig öðrum vísbendingum úr umhverfinu eins og matarinntöku og virkni.

Í sögulegu samhengi var fæða lengi vel af skornum skammti og þar sem orka og næringarefni eru okkur lífsnauðsynleg, hungrar okkur í mat og njótum þess alla jafna að borða! Til að tryggja stöðugan aðgang þróuðum við með okkur einstaka hæfni til að varðveita auka orku og næringu. Eins og dýrmæt líftrygging! Það hefur því þjónað mannkyninu að sækja í orkuríka fæðu, vera jafnvel svolítið löt og velja styttri leiðina. Það er lykilatriði að skilja það, að okkur er í grunninn ekki eðlislægt að stunda skipulagða hreyfingu eða veita sjálfum okkur aðhald þegar að kemur að mataræði. Þvert á móti!

Þessar frumstæðu hvatir höfum við tekið með okkur inn í nýja tíma allsnægtar og þæginda þar sem áskoranir eru gjörólíkar þeim sem við eigum að þekkja.
Umhverfið hefur heldur betur breyst og við höfum nú allan sólarhringinn aðgang að afþreyingu, einstaklingshyggjan er allsráðandi og við berum gjarnan heiminn á herðum okkar! Kyrrseta er orðið stórt vandamál enda lítill hvati til að viðhalda líkamlegum burðum. Náttúrulaus og orkuþétt, gjörunninn matvæli eru orðinn alltof stór partur af okkar heildarorkuinntöku og eru bein tengsl við neyslu þeirra og aukna tíðni lífsstíls-/orku- og efnaskiptasjúkdóma.

Gjörunninn matvæli innihalda fullkomna blöndu af fínunnum kolvetnum sem hafa verið skilin frá sínu trefjahýði, ásamt dassi af fitu, salti sem og aukaefnum til að bragðbæta og lengja líftíma fæðulíkisins. Hálfmelt, rata þau beint út í blóðrásina og hækka blóðsykur (og hormónið insúlín) meira en við kærum okkur um, sem truflar annars fínstillt orkujafnvægi líkamans.
Líkt og farfugl sem hyggst fljúga yfir Atlantshafið eða bjarndýr sem undirbýr sig fyrir að leggjast í dvala, þá fer líkaminn í forðagír, hann fer etv á beit og verður sparsamari á orku til að tryggja nægar orkubirgðir fyrir veturinn sem er í vændum. Þessi orkusparandi hamur, reyndist okkur mikil lífsbjörg! En okkur var aldrei ekki ætlað að dvelja í orkusparandi ham árum saman; í dag er það hins vegar nánast orðið hið nýja norm og við köllum ástandið insúlínviðnám  (skert orku- efniskiptaheilsa).
Efnaskiptaheilsu okkar er jafnvel ögrað strax í móðurkviði og svo kallaðir lífsstílstengdir, eða ósmitbærir orku- og efnaskiptasjúkdómar verða æ algengari og eru meira að segja farnir að greinast hjá yngri fullorðnum, og börnum! Og það er ekki tilviljun að þreyta og jafnvel örmögnum er bæði algengasta og mest hamlandi einkenni hinna ýmsu lífsstílssjúkdóma sem herja á okkur í dag.

En hvað er þá til ráða?
Förum reglulega út fyrir þægindaramman og þenjum kerfið til að viðhalda líkamlegum burðum. Tökum frá tíma í  hvíld og gerum okkar besta til að takmarka óþarfa streituvalda, drekkum nóg vatn og veljum góða orku, tengjumst fólkinu okkar, náttúrunni í kringum okkur og sýnum okkur sjálfsmildi!
Og munum að anda með nefinu!
Þegar að líkaminn finnur að grunnþörfum okkar er mætt líður honum betur, við erum orkumeiri og getum dafnað. Taugakerfið nær betra jafnvægi, við verðum yfirvegaðri og orkumeiri og eigum auðveldara með að taka betri ákvarðanir, til heilsu.

* Dæmi um (orku-) og efnaskiptasjúkdóma; háþrýstingur og hjarta- og æðasjúkdómar, fitulifur, heilabilun, offita (fof aukin kviðfita/mittismál), sykursýki 2, krabbamein og geðsjúkdómar.

Tekla Hrund Karlsdóttir,
(Lífstíls)læknir

Til baka