30.01.2024

Eliza Reid verndari Lungnasamtakanna afhenti styrk úr Vísindasjóði Lungnasamtakanna.

Eliza Reid verndari Lungnasamtakanna afhenti nýlega fyrsta styrk úr Vísindasjóði Lungnasamtakanna, við hátíðlega athöfn í húsnæði Lungnasamtakanna. Styrkinn hlaut Jón Pétur Jóelsson nýdoktor við Háskóla Íslands og Landspítala. Jón Pétur vinnur í samstarfi við Sigurberg Kárason yfirlækni á gjörgæslu Landspítalans á Hringbraut, að rannsókn á meðferðarúrræði til að fyrirbyggja og/eða meðhöndla öndunarvélatengdan lungnaskaða.
Öndunarvélarmeðferð er lífsbjargandi úrræði fyrir alvarlega veika sjúklinga gjörgæsludeilda. Meðferðin getur leitt til alvarlegs fylgikvilla sem nefndur er öndunarvélartengdur lungnaskaði. Skortur er á meðferðaúrræðum til þess að hindra eða meðhöndla slíkan skaða, en vísbendingar eru um að þekjustyrkjandi og bólgubreytandi eiginleikar sýklalyfsins Azithromycin nýtist í þessum tilgangi Rannsókn Jóns Péturs og Sigurbergs beinist að því að kanna hvort  lyfið geti spornað að einhverju leyti við lungnaskaða vegna öndunarvélarmeðferðar.
Vísindasjóður Lungnasamtakanna var stofnaður 2017. Tilgangur sjóðsins er að efla rannsóknir á orsökum lungnasjúkdóma, forvörnum og meðferð sem bæta munu lífsgæði lungnasjúklinga. Mikilvægur þáttur í því er að vekja áhuga nemenda á heilbrigðissviði á sérhæfingu á sviði lungnasjúkdóma og er stjórn sjóðsins þakklát þeim sem sýndu áhuga sinn með því að sækja um styrk.
Gaman er að segja frá því að tveir stjórnarmenn vísindasjóðsins koma úr lungnateymi Reykjalundar, þær Jónína Sigurgeirsdóttir hjúkrunarfræðingur og Ingibjörg Bjarnadóttir iðjuþjálfi.

Til baka