19.01.2024

Föstudagsmolar forstjóra 19. janúar 2024.

Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,

*Nýir nágrannar.
Enn og aftur er mér ofarlega í huga þakklæti til ykkar allra fyrir þolinmæði og lausnamiðaðar nálganir síðustu vikur í þeim húsnæðishrakningum sem hér hafa staðið yfir. Eins og kunnugt er þurftu 32 starfsmenn að flytja starfsstöðvar sínar í byrjun desember. Það er ekki bara röskun og breytingar á högum þessara starfsmanna sem orðið hafa, heldur hefur ástandið kallað á breytingar hjá nánast okkur öllum. Þetta hefur í heildina gengið ótrúlega vel og vil ég senda ykkur öllum kærar þakkir. Vonandi eru sem allra flestir komnir í þokkalega aðstöðu.
Sjálfur er ég kominn í fína aðstöðu innarlega á G-gangi þar sem áður var einhvers konar geymsla eða hvíldarherbergi sem lítið var notað. Þar hef ég eignast nýja nágranna eins og flest allir í húsinu. Mínir eru hins vegar heldur betur í fjörugri kantinum enda er vinnustofa Hleinar, hjúkrunarsambýlisins okkar, við hliðina á mér. Þar ríkir jafnan mikil gleði og glaumur og sannarlega gaman að hafa svona hressa og káta snillinga í kringum sig. Myndin með molunum í dag er einmitt af nokkrum úr Hleinar-genginu okkar.

*Frekar um húsnæðismál.
Í næstu viku birtum við úttektarskýrslu frá verkfræðistofunni Verksýn um ástand húsnæðismála en hún hefur verið að berast okkur í nokkrum hlutum undanfarna daga. Þar eru ítarleg umfjöllun um ástand á hverri byggingu fyrir sig. Við kynnum það nánar um leið og það er tilbúið.
Af framtíðarskipulagi húsnæðimála okkar og viðræðum við stjórnvöld er í raun ekkert stórt að frétta. Það er þó verið að taka lítil skref og í vikunni var kynnt fyrir okkur að heilbrigðisráðherra hefur samþykkt stofnun samráðshóps um húsnæðismál endurhæfingarstofnana. Markmið hópsins verði að móta heildstæða stefnu í húsnæðismálum endurhæfingarþjónustu og leiðir skoðaðar til fjármögnunar á viðhaldi húsnæðis sem hýsir slíka þjónustu en ekki er gert ráð fyrir viðhaldskostnaði húsnæðis í samningum Sjúkratrygginga Íslands við veitendur endurhæfingarþjónustu, eins og kunnugt er. Ráðherra telur mikilvægt að skoða málefnið í stærra samhengi þar sem samningar milli þjónustuveitenda og Sjúkratrygginga taka ekki til leigukostnaðar né viðhalds á húsnæði en Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu munu eiga fulltrúa í hópnum. Málefni okkar hér á Reykjalundi verða þar fyrst á dagskrá. Þetta tengist svo allt samningum okkar við Sjúkratryggingar Íslands sem rennur út 31. mars en það er til lítils að gera nýjan langtímasamning ef ekki er til staðar viðeigandi húsnæði til að veita þjónustuna í. Ég leyfi ykkur að fylgjast með gangi mála um leið og eitthvað merkilegt er að frétta en hér verðum við því miður bara að sýna þolinmæði – sjálfur vildi ég nú gjarnan að þetta gengi töluvert hraðar svo það sé nú sagt.

*Almennur starfsmannafundur á miðvikudaginn.
Að lokum vil ég minna á starfsmannafundinn okkar á miðvikudaginn. Þar förum við almennt yfir stöðuna á hjá okkur í upphafi á nýju ári og er þar af ýmsu að taka. Húsnæðismál eru auðvitað á dagskránni en margt fleira mikilvægt sem er í gangi eða fer í gang á árinu, eins og skilvirkari biðlistavinna, ýmis tækni- og tölvumál, vinna við hvað tekur við af Diönu-kerfinu o.fl.
Vonandi sjáumst við þar sem flest.

Að lokum vil ég senda góðar og hlýjar kveðjur til Grindvíkinga og allra þeirra sem þeim tengjast. Þar bíða sannarlega stór og erfið verkefni.
Góða og gleðilega helgi – Áfram Ísland!

Bestu kveðjur,
Pétur

 

Til baka