12.01.2024

Föstudagsmolar forstjóra 12. janúar 2024 - Gestahöfundur er Anna Stefánsdóttir, formaður stjórnar.

Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,

Hér koma föstudagsmolar vikunnar en það er vel við hæfi að fyrsti gestahöfundur ársins sé Anna Stefánsdóttir, formaður stjórnar Reykjalundar endurhæfingar ehf.
Myndin sem fylgir er af núverandi stjórn Reykjalundar endurhæfingar ehf. Frá vinstri: Aldís Stefánsdóttir bæjarfulltrúi, meðstjórnandi, Anna Stefánsdóttir hjúkrunarfræðingur, formaður, Arna Harðardóttir sjúkraþjálfari, varamaður og Gunnar Ármannsson lögmaður, meðstjórnandi.

Góða og gleðilega helgi!

Bestu kveðjur,
Pétur


Ágæta starfsfólk.

Gleðilegt nýár og kærar þakkir fyrir samstarfið á liðnu ári. Ég þakka ykkur af heilum hug fyrir ykkar mikilvæga framlag til starfseminnar á Reykjalundi. Einnig þakka ég þann mikla vilja og dugnað sem þið sýnið á erfiðum tíma í lok síðasta árs þegar flytja varð hluta af starfseminni til innanhús á Reykjalundi vegna ófullnægjandi ástands húsnæðisins.

Mér fannst sérstaklega ánægjulegt og áhugavert að taka þátt í stefnumótunardeginum s.l haust. Mikill samstaða var á deginum og árangurinn eftir því.  Eitt af því sem mikil samstaða var um er nauðsyn þess að fara í umtalsverðar umbætur í upplýsingatæknimálum. Nú er lokið vinnu við að greina stöðuna á þeim málum og þá er komið að næsta skrefi, vinna að umbætum og færa upplýsingatæknina til nútímans.

Við gögnum nú til móts við nýtt ár með tilhlökkun, enda eigum við í vændum viðburðarríkt ár með krefjandi verkefnum og fjölda áskorana.  Starfsemi Reykjalundar er gríðarlega mikilvæg fyrir samfélagið okkar enda er sú meðferð sem hér er veitt ekki í boði annars staðar á landinu.  Ófullnægjandi húsnæði er núverandi starfsemi fjötur um fót. Niðurstaða úttektar á húsnæðinu var kynnt eigendum húsnæðisins svo og starfsfólki heilbrigðisráðuneytisins í lok síðasta árs og vonast er eftir viðbrögðum hið fyrsta.  Það er von okkar í stjórn Reykjalundar að það takist að finna varanlegar lausnir í húsnæðismálum svo unnt sé að tryggja samfellda og órofna þjónustu við sjúklinga bæði til lengri og skemmri tíma, ásamt því að geta boðið starfsfólkinu góða vinnuaðstöðu.  Stjórnin mun leggja sitt að mörkum í þeim efnum.

Annað stórt verkefni nýs árs er þjónustusamningur milli Reykjalundar og Sjúkratrygginga Íslands. Það er vilji stjórnar og forstjóra að gera nýjan samning, setja starfseminni ný markmið í samræmi við nýja stefnu Reykjalundar. Endurskoða þarf greiðslugrunninn til að gæta samræmis milli þjónustuþarfa sjúklinga og þjónustunnar sem veitt er.  Ekki er hægt að veita meiri þjónustu en greitt er fyrir.  Þar kemur góð skráning mjög sterkt inn til að unnt sé að sannreyna hvaða þjónusta er veitt hverjum einstaklingi sem kemur til meðferðar á Reykjalundi.  Ennfremur er vilji til að bjóða Sjúkratryggingum að kaupa meiri þjónustu af Reykjalundi í þeim sérgreinum sem mest bið er eftir þjónustu eða þar sem greinilega þörf er í samfélaginu fyrir aukna þjónustu. Það verður þó aldrei gert nema að á undan fari vel skilgreind meðferðaráætlun.

Í nýbirtum niðurstöðum úr þjónustukönnun sem gerð var á síðasta ári á Reykjalundi kemur í ljós, líkt og í fyrri könnunum, hversu ánægðir sjúklingar eru með meðferðina og þann árangur sem þeir finna á andlegri og líkamlegri líðan sinni eftir að hafa notið þjónustu ykkar. Þetta er glæsilegur vitnisburður.

Ég óska ykkur velfarnaðar í leik og starfi.

Anna Stefánsdóttir,
formaður stjórnar

Til baka