04.01.2024

Grein í Morgunblaðinu um húsnæðismál Reykjalundar

Þann 28. desember birtist í Morgunblaðinu eftirfarandi grein um húsnæðismál Reykjalundar eftir Önnu Stefánsdóttur formann stjórnar Reykjalundar endurhæfingar ehf. og Pétur Magnússon forstjóra Reykjalundar. Nokkrir fjölmiðlar fjölluðu svo um stöðu málsins í kjölfarið. Greinina má lesa hér:

Úrlausn húsnæðismála Reykjalundar mikilvæg til að tryggja áframhaldandi starfsemi.

Í byrjun desember lokaði endurhæfingarstöðin Reykjalundur hluta húsnæðis síns vegna bágs ástands bygginga heilbrigðisstofnunarinnar. Var þetta gert í framhaldi af úttekt verkfræðistofu sem sýnir að óheilnæmt er fyrir sjúklinga og starfsfólk að dvelja í umræddum byggingum.

Reykjalundur er stærsta endurhæfingarstofnun landsins.
Reykjalundur er heilbrigðisstofnun í eigu SÍBS og hófst starfsemin árið 1945. Reykjalundur er í dag stærsta endurhæfingarstofnun landsins og þjónar öllu landinu. Þar fer fram alhliða endurhæfing sem miðar að bættum lífsgæðum, aukinni færni og sjálfsbjargargetu þeirra sem þangað leita. Endurhæfing Reykjalundar er byggð upp samkvæmt alþjóðlegum, klínískum leiðbeiningum. Meðferðin einkennist af þverfaglegri samvinnu fagfólks sem myndar sjö sérhæfð meðferðarteymi, sem starfrækt eru að mestu á dagvinnutíma. Auk þess er þverfagleg legudeild opin allan sólarhringinn. Einnig hefur fjöldi gistirýma verið í boði fyrir sjúklinga utan af landi og aðra sem þess þurfa vegna aðstæðna sinna. Um 130 manns njóta þjónustu Reykjalundar á degi hverjum. Á hverju ári fá um það bil 1.300 manns endurhæfingarmeðferð á Reykjalundi, flestir í 4-6 vikur í senn. Auk þess kemur fjöldi sjúklinga í viðtöl á göngudeild á hverju ári.

Bágborið ástand húsnæðisins kemur ekki á óvart.
Stjórnendur og starfsfólk Reykjalundar hafa um nokkurn tíma haft grun um að hluti húsnæðis Reykjalundar sé ófullnægðandi, annars vegar til að veita viðkvæmum sjúklingahópi heilbrigðisþjónustu og hins vegar sem vinnuaðstaða starfsfólks. Stjórnendur hafa undanfarin misseri kynnt áhyggjur af ástandi húsnæðisins fyrir heilbrigðisráðuneytinu og forstjóra Sjúkratrygginga Íslands. Einnig hefur stjórn SÍBS verið meðvituð um ástandið, en SÍBS er eigandi húsnæðisins. Viðamikil úttekt verkfræðistofu á húsnæðinu hófst síðasta sumar og staðfestir hún grun um ófullnægjandi ástand þess. Í kjölfarið hefur því miður þurft að loka hluta af húsnæðinu.

Reynt hefur verið eins og kostur er að sjá til þess að lokunin verði ekki til að draga úr starfseminni þó óneitanlega verði einhverjir hnökrar á þjónustu. Nauðsynlegt er að ráðast í verulegar umbætur á húsnæðinu. Óvíst er hversu lengi lokunin varir þar sem ekki eru til fjármunir til að fara í þær umfangsmiklu lagfæringar sem nauðsynlegar eru.

Ganga þarf frá framtíðarfyrirkomulagi húsnæðismála.
Samkvæmt þjónustusamningi Reykjalundar við Sjúkratryggingar Íslands er ekki gert ráð fyrir greiðslum vegna viðhalds húsnæðis heldur einungis fyrir veitingu heilbrigðisþjónustu. SÍBS, sem eigandi húsnæðisins, hefur frá stofnun Reykjalundar greitt kostnað við uppbyggingu og viðhald. Eftir því sem húsnæðið verður eldra og viðhaldsfrekara, samhliða því sem tekjur af flokkahappdrætti SÍBS hafa minnkað, þá hrökkva þeir fjármunir ekki lengur til og því hefur einungis lágmarksviðhaldi verið sinnt á Reykjalundi í mörg ár. Stjórnvöld eru meðvituð um þessa stöðu og einnig um að húsnæðismál Reykjalundar eru langt frá því að vera sjálfbær. Nauðsynlegt er að fá hið fyrsta niðurstöðu um framtíðarfyrirkomulag húsnæðismála Reykjalundar, eigi að veita þar heilbrigðisþjónustu í framtíðinni.

Finna þarf farsælar lausnir sem allra fyrst.
Endurhæfing miðar að því að auka lífsgæði einstaklingsins og þeirra sem næst honum standa og er sannarlega þjóðhagslega hagkvæm þegar horft er til nýtingar fjármagns í samfélaginu. Starfsemi Reykjalundar er því gríðarlega mikilvæg fyrir samfélagið okkar enda er sú meðferð sem veitt er á Reykjalundi ekki í boði annars staðar í heilbrigðiskerfinu. Það er von okkar að hægt verði að finna lausnir sem tryggja samfellda og órofna þjónustu við sjúklinga til bæði skamms og langs tíma ásamt því að geta boðið upp á góða vinnuaðstöðu fyrir starfsfólk. Við skorum á stjórnvöld að finna farsælar lausnir með okkur sem allra fyrst.

Pétur Magnússon, forstjóri Reykjalundar
Anna Stefánsdóttir, stjórnarformaður Reykjalundar endurhæfingar ehf.

Til baka