15.12.2023

Föstudagsmolar 15. desember 2023

Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,
 
*Þrír starfsmenn heiðraðir á jólafundinum.
Í vikunni fór fram árlegur jólafundur Reykjalundar. Þessi starfsmannafundur er mjög óhefbundinn því þar ræðum við hvorki um fjármál né faglegar áherslur, heldur gerum okkur glaðan dag. Hefð er fyrir því að heiðra starfsmenn sem náð hafa 20 ára starfsaldri hjá okkur. Að þessu sinni náðu þessum merka áfanga þær Gunnhildur L. Marteinsdóttir sálfræðingur, Sif Þórsdóttir iðjuþjálfi og Kumrije Kalevígí félagsliði á Hlein. Við óskum þeim öllum til hamingju með áfangann og þökkum fyrir tryggðina við Reykjalund og Hlein. Myndin með molunum í dag sýnir þær þrjár ásamt Guðbjörgu mannauðsstjóra og undirrituðum.
Auk heiðrunarinnar mætti tónlistarkonan Guðrún Árný í heimsókn á fundinn og kom öllum í jólaskap með skemmtilegum jólalögum þar sem allir sungu með og engu líkara var en Reykjalundarkórinn hefði verið endurvakinn, svo glæstur var söngurinn. Fyrir söngelska má kannski bæta því við að Guðrún Árný er einmitt reglulega með opnar kóræfingar, þar sem fólk kemur saman og syngur án neinna skuldbindinga. Frekari upplýsingar um það eru á heimasíðu hennar: https://www.gudrunarny.is/
 
*Jólavöfflur og kakó á mánudaginn.
Á dögunum kom fram sú ljómandi skemmtilega hugmynd að bjóða upp á jólavöfflur og kakó fyrir sjúklinga og starfsfólk. Í samráði við eldhúsið okkar ætlum við að grípa þessa fínu hugmynd á lofti. Það er því gaman að segja frá því að á mánudaginn, 18. desember, býður Reykjalundur upp á jólavöfflur og kakó í matsalnum kl 14:20-15:45.
Við hvetjum sem flesta til að kíkja við og fá sér jólahressingu.
 
*Endurhæfingarráðstefna Reykjalundar verður 29. febrúar.
Eins og kynnt hefur verið, meðal annars sem hluti af útkomunni úr stefnumótun Reykjalundar, verður Endurhæfingarráðstefna Reykjalundar haldin á næsta ári. Hugmyndin er að koma af stað árlegum viðburði kringum afmælisdag Reykjalundar, sem er í febrúar, þar sem haldinn yrði stór ráðstefna um endurhæfingu á Íslandi. Undirbúningsnefnd var skipuð í haust og gaman er að segja frá því að ákveðið hefur verið að ráðstefnan verði á hlaupársdag, fimmtudaginn 29. febrúar, á næsta ári. Nú í fyrsta skipti verður hún í hálfan dag, eftir hádegi.
Strax í byrjun á nýju ári munum við kynna ráðstefnuna og dagskrá en endilega takið daginn frá.
 
Ég óska ykkur góðrar og gleðilegrar helgar.
 
Bestu kveðjur,
Pétur

Til baka