13.12.2023

Fjör á afmælis- og aðventukaffi Hleinar.

Mánudaginn 11. desember sl. var mikið húllumhæ á hjúkrunarsambýlinu Hlein við Reykjalund en þá voru 30 ár liðin frá því að fyrstu íbúarnir fluttu inn á Hlein. Af því tilefni buðu íbúar og starfsmenn Hleinar til veislu sem var mjög vel sótt. Á meðal gesta voru aðstandendur, fyrrverandi starfsmenn Hleinar, stjórnarmenn Hleinar, starfsmenn Reykjalundar og ýmsir aðrir velunnarar sambýlisins.
Anný Lára Emilsdóttir, framkvæmdastjóri Hleinar, bauð gesti velkomna og Guðmundur Löve, framkvæmdastjóri SÍBS sem er eigandi Hleinar, hélt fallega ræðu um mikilvægi Hleinar og sérstöðunnar sem sambýlið hefur. Guðrún Björt Yngvadóttir, fyrrverandi alþjóðaforseti Lions, færði heimilinu gjafabréf fyrir forláta Lotto/bingóvél, sem mun svo sannarlega nýtast íbúum og gestum. Húsnæði Hleinar var byggt á árunum 1990-1992 að stórum hluta fyrir söfnunarfé sem Lionshreyfingin aflaði með sölu á Rauðu fjöðrinni. Stuðboltinn Gói Karlsson söng jólalög við eigin píanóundirleik og naut þar dyggs stuðnings Valgeirs Árna Ómarssonar, íbúa á Hlein.  
Íbúar og starfsmenn Hleinar senda innilegar jólakveðjur til ykkar allra!
Meðfylgjandi eru nokkrar myndir úr samkvæminu.

Til baka