Vísindagrein um jafnvægispróf
Nú á dögunum birtist grein í Physiotherapy Theory and Practice um próffræðilega eiginlega íslenskrar þýðingar á jafnvægisprófinu MiniBESTest. Greinin heitir „Evaluating the reliability and validity of the Icelandic translation of the Mini-BESTest in rehabilitation patients: an international implication for balance assessment“. Höfundar eru Sif Gylfadóttir, Sólveig Á Árnadóttir, Selma Margrét Reynisdóttir, Bjartey Helgadóttir, Andri Þór Sigurgeirsson og Marta Guðjónsdóttir. Greinin byggir á meistaranámsrannsókn sem unnin var á Reykjalundi veturinn 2019-2020 af þeim Selmu og Bjarteyju undir leiðsögn Sifjar og Andra sjúkraþjálfara á taugasviði. Ábyrgðarmaður var Marta rannsóknarstjóri. Góð matstæki eru mikilvæg í endurhæfingu enda stendur í vísindastefnu Reykjalundar að leggja skuli „áherslu á að auka þekkingu á matstækjum og..." og að Reykjalundur skuli „…vera í fararbroddi í aðlögun og þróun nýrra matsaðferða í endurhæfingu“. Skert líkamlegt jafnvægi er algengt á meðal þeirra sem koma til endurhæfingar á Reykjalundi. Því var mikil þörf á jafnvægisprófi, sem er tiltölulega einfalt og fljótlegt að nota en uppfyllir þó ströng skilyrði um réttmæti og áreiðanleika. Nú er hefur það matstæki, MiniBEST prófið, verið þýtt og prófað í bak og fyrir með vísindalegum hætti og er því tilbúið til notkunar í almennri klínískri vinnu og sem fullgilt matstæki í vísindarannsóknum.
Til baka