08.12.2023

Föstudagsmolar 8. desember 2023

Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,

Vikan sem er að líða hefur aldeilis verið sérstök fyrir Reykjalundarlífið. Mikið hefur gerst eftir að tilkynnt var, í lok síðustu viku, um lokun hluta bygginga hér á Reykjalundi, þar sem óheilnæmt er fyrir starfsfólk og sjúklinga að dvelja í þeim. Vegna þessa hefur þurft að leysa úr ýmsum málum og vinna fjölda handtaka. Ferlið hefur í heildina gengið mjög vel og vonum framar. Fyrir allt þetta vil ég enn og aftur þakka ykkur af virðingu og hlýhug, enda hafa allir þurft að sýna mikla þolinmæði, skilning og samhug.

Á miðvikudaginn bauð Reykjalundur svo okkur starfsfólki, sjúklingum, skjólstæðingum og góðum gestum í jólamat í hádeginu. Starfsmannafélagið hafði hvatt alla til að mæta í jólapeysum eða jólafötum og voru mjög margir, bæði úr hópi sjúklinga og starfsfólks sem tóku þeirri áskorun. Þar var því mikil jólastemning.
Ég vil nota þetta tækifæri og þakka öllum í eldhúsinu fyrir frábæran mat og meðlæti og sendi þakklætiskveðjur til ykkar allra fyrir að taka þátt og skapa þessa skemmtilegu stund með okkur.

Gestahöfundur molanna í dag er Ólöf Árnadóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar, sem sendir okkur góðar kveðjur frá starfsdegi hjúkrunarfræðinga, sjúkraliða og ritara.

Njótið helgarinnar!

Bestu kveðjur,
Pétur

***

Föstudagsmolar 8. desember 2023.

Kæra samstarfsfólk,

Í dag, 8. desember, er skipulagður starfsdagur hjúkrunarfræðinga, ritara og sjúkraliða á Reykjalundi. Við ætlum að verja deginum í Hannesarholti njóta samveru og efla okkur sem faghóp.

Ár hvert halda faghópar á Reykjalundi árlegan starfsdag. Starfsdagarnir einkennast af fræðslu, starfsþróun og samþættingu starfsemi faghópsins yfir þau ólíku svið  sem endurspegla starfsemi Reykjalundar.  Starfsdagurinn í dag er tileinkaður jákvæðri heilsu, heilsulæsi og hvernig við sem faghópur getum lagt okkur af mörkum í auknu samstarfi og eflt tengslanet við aðra stofnanir. Þekking endurhæfingarhjúkrunar  á sér áratuga reynslu á Reykjalundi og hefur hún sett mark sitt á það starf sem fram fer á Reykjalundi allt frá því á upphafsárum starfseminnar.
Á starfsdeginum okkar í dag fáum við til okkar nokkra vel valda fyrirlesara.  Hún Elínborg Bárðardóttir sérfræðingur í heimilislækningum ætlar að fræða okkur jákvæða heilsu.  Hugmyndafræði jákvæðrar heilsu sem nálgun á heilsu á uppruna í Hollandi hjá heimilislækninum Machteld Huber.  Nálgunin snýst því um þrautseigju, að takast á við veikindi, vera sjálfur við stjórnvölinn, reyna að aðlagast nýjum veruleika eins og kostur er.  Halda heilsu með því að finna út hvaða aðrir þættir skipta einnig máli í lífinu til að halda heilsu þrátt fyrir langvinnan sjúkdóm. Ætla má að slík nálgun eigi vel við í endurhæfingu.

Í heilbrigðistefnu Heilbrigðisráðuneytisins til ársins 2030 er rætt um mikilvægi að þess að efla heilsulæsi með markvissu starfi hjá þeim sem veita heilbrigðisþjónustu. Hugtakið heilsulæsar stofnanir er nýlegt hugtak í eflingu heilsulæsi eftir að rannsóknum um heilsulæsi fór að fjölga.  Í blaði félag íslenskra hjúkrunarfræðinga nú í september 2023,  birtist góð grein um heilsulæsi og hvað þættir það eru sem einkenna heilsulæsar stofnanir. Við fáum hluta höfunda þeirra greinar þær Brynju Ingadóttur, sérfræðing í hjúkrun, Margréti Hrönn Svavarsdóttir prófessor og Jóhönnu Ósk Eiríksdóttir sérfræðingur í hjúkrun til.  Þær ætla að fræða okkur um mikilvægi heilsulæsi og ekki síst hvaða einkenni heilsulæsa stofnun þarf að hafa. Það verður spennandi að heyra hvort Reykjalundur falli undir slíka skilgreiningu eða hvað þarf til að slíkt geti orðið.

Samhliða fræðslunni í dag verða vinnustofur og afrakstur þeirra munum við síðan nota inn í okkar góða starf sem hjúkrunarfræðingar, sjúkraliðar og ritara vinna á hverjum í meðferð þeirra sjúklinga sem þiggja endurhæfingu á Reykjalund.  

Meðfylgjandi er mynd af hópnum sem tekur þátt í starfsdeginum í dag.  Við byrjuðum snemma og ætlum að enda seint.

Gleðilega aðventu.

Ólöf Árnadóttir,
Framkvæmdarstjóri hjúkrunar

Til baka