01.12.2023

Föstudagsmolar forstjóra 1. desember 2023.

Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,

Þá er fullveldisdagur okkar Íslendinga runninn upp og aðventan á næsta leiti. Það er þó með óhefðbundnum hætti sem við höldum upp á þessa áfanga hér á Reykjalundi þetta árið enda voru erfiðar en kannski ekki svo óvæntar fréttir sem kynntar voru í gær, varðandi húsnæðimál Reykjalundar.

Þakkir.
Eins og fram hefur komið verður hluta af byggingu Reykjalundar lokað eftir að vinnudegi líkur í dag, föstudaginn 1. desember, þar sem óheilnæmt er fyrir starfsfólk og sjúklinga að dvelja í þeim.
Ekki verður heimilt að vera með starfsemi í þessum rýmum eftir daginn í dag. Kynnt hefur verið að 32 starfsmenn þurfa að flytja úr vinnuaðstöðu sinni vegna þessa. Við jafn umfangsmikla flutninga er að mörgu að huga en umræddir starfsmenn eru í raun að kveðja núverandi vinnustöð í a.m.k. eitt ár og jafnvel lengur. Ekkert er svo víst að við förum endilega aftur á sömu vinnustöð þegar viðgerðum er lokið.
Við flutninginn og þrif gilda ákveðnar vinnureglur en þær eru kynntar umræddu starfsfólki sérstaklega, meðal annars með upplýsingafundi í gær, upplýsingapósti í morgun og ýmsum formlegum og óformlegum fundum og samtölum. Við höfum samið við ræstingafyrirtæki sem strax er komið hingað í húsið og sér um ræstingu tengda flutningunum. Ekki er ætlast til að starfsfólk sé sjálft að annast þrif enda af nógu að taka við tiltekt og pökkun.
Fréttirnar í gær voru okkur mörgum erfiðar enda sérstakt að kveðja starfstöð þar sem fólk hefur verið lengi, jafnvel áratugum saman. Held samt að fréttirnar hafi ekki endilega komið þeim okkar sem þekkja til mikið á óvart en erfiðar samt. Fréttirnar þýða líka breytingar, aðlögun og ýmis óþægindi fyrir flesta aðra starfsmenn en þá sem þurfa að flytjast til.
Á þessari stundu er mér efst í huga þakklæti til ykkar. Það var ekki sjálfgefið að fá þau jákvæðu viðbrögð, sem fram komu, í þessum erfiðu aðstæðum í gær. Mjög gott er að finna þann anda og lausnamiðuðu stemningu sem er í okkar hópi, ekki síst í þeim hópi sem þarf að flytja til. Margir aðrir hafa svo boðið fram aðstoð með ýmsum hætti. Það eru mörg mál sem bíða úrlausnar en ég er sannfærður um að við klárum þau í sameiningu.
Fyrir allt þetta ber að þakka af virðingu og hlýhug.
Jafnframt vil ég þakka þær góðu kveðjur sem okkur hér á Reykalundi hafa borist víðsvegar úr samfélaginu enda hefur málið vakið mikla athygli. Eins og fram hefur komið vil ég ítreka að við munum gera allt sem við getum svo þjónusta við sjúklinga okkar skerðist sem allra minnst.

Jólamatur á miðvikudaginn.
Við ætlum líka að halda okkar striki og gaman er að segja frá því að á miðvikudaginn, 6. desember, býður Reykjalundur starfsfólki og sjúklingum upp á gómsætan jólamat í hádeginu sem starfsfólkið í eldhúsinu ætlar að töfra fram. Jafnframt verður boðið upp á hugljúfa jólatónlist við flygilinn framan við matsalinn. Starfsmannafélagið hefur hvatt til að allir mæti í jólapeysum, með jólahúfur eða einhverju öðru mjög svo jólalegu, til vinnu þennan dag. Sjúklingum, skjólstæðingum og öðrum gestum okkar er líka velkomið að vera með í því svo gaman væri að sjá sem allra flesta í jólagírnum á miðvikudaginn.
Myndin sem fylgir molunum í dag var einmitt tekin fyrir ári síðan þegar jólapeysur og jólaföt voru þema dagsins hjá okkur. Gaman er að rifja upp þessa stórskemmtilegu mynd.

Að lokum vil ég óska sjúkraliðum til hamingju með Evrópudag sinn sem var 26. nóvember síðastliðinn.
Ég óska ykkur öllum gleðilegrar aðventu og góðrar helgar.

Bestu kveðjur,
Pétur

Til baka