28.11.2023

Nýju rannsóknarverkefni ýtt úr vör: Buteyko öndunarþjálfun sem hluti af verkjameðferð á Reykjalundi

Nýverið fékkst leyfi Vísindasiðanefndar (https://vsn.is) fyrir rannsókn á áhrifum Buteyko öndunarþjálfunar á sjúklinga með langvinna verki.

Markmið rannsóknarinnar er að meta hvort Buteyko öndunarþjálfun, sem viðbótarmeðferð í þverfaglegri endurhæfingu sjúklinga með langvinna verki, auki við áhrif endurhæfingarinnar á heilsu, svefn, verki, andlega líðan, einkenni sem tengjast skilvirkni öndunar og líkamlega virkni til skemmri (5 vikna endurhæfing) og lengri tíma (endurmat eftir 10-12 mánuði). Á tímabilinu nóvember 2023 til aprílloka 2024 verður öllum þeim sem koma til endurhæfingar hjá verkjateymi Reykjalundar boðin þátttaka í rannsókninni. Á fyrri hluta tímabilsins (nóv23-feb24) verður Buteyko öndunarþjálfun bætt við aðra meðferð en eftir það verður meðferðin án öndunarþjálfunar. Gert er ráð fyrir að 20-30 þátttakendur fái Buteyko öndunarþjálfun og 20-30 þátttakendur fái það ekki. Endurhæfingin er að jafnaði 5 vikur og svo verður staða þátttakenda endurmetin 10-12 mánuðum eftir lok endurhæfingar. Til viðbótar þátttakendum mun árangur 50 sjúklinga sem lokið hafa endurhæfingu hjá verkjateymi á tímabilinu janúar til október 2023 vera notaður sem viðmið. Fyrri rannsóknir hafa sýnt góðan árangur í endurhæfingu sjúklinga með langvinna verki á Reykjalundi. Þessari rannsókn er ætlað að leggja mat á hvort Buteyko öndunarþjálfun, sem í seinni tíð hefur verið gerð aðgengilegri með hjálp smáforrits og snjalltækja, bæti árangur sjúklinganna enn frekar hvað varðar mikilvæga þætti í lífsgæðum svo sem svefn, verki og andlega líðan.

Ábyrgðarmaður rannsóknarinnar er Dr. Marta Guðjónsdóttir rannsóknarstjóri á Reykjalundi og dósent við Háskóla Íslands.  Auk hennar eru í rannsóknarhópnum Magni Grétarsson meistaranámsnemi í sjúkraþjálfun við Háskóla Íslands, Ögmundur Bjarnason yfirlæknir verkjasviðs, Kristjana Jónasdóttir og Heidi Andersen sjúkraþjálfarar á verkjasviði.

Á myndinni er rannsóknarhópurinn á „kick-off“ fundi rannsóknarinnar þann 8. nóvember s.l.

Til baka