10.11.2023

Föstudagsmolar forstjóra 10. nóvember 2023.

Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,
 
*Vel heppnaður Vísindadagur Reykjalundar var í gær.
Í gær fór fram Vísindadagur Reykjalundar en dagurinn fór fram í 20. skipti. Ólíkt því sem verið hefur hingað til, fór dagurinn fram á fimmtudegi en ekki föstudegi. Á dagskránni voru ýmis áhugaverð erindi þar sem kynntar voru rannsóknir sem tengjast okkur hér á Reykjalundi. Það eru þær Marta rannsóknastjóri og Vísindaráð Reykjalundar, þær Inga Hrefna sálfræðingur, Sóley læknir og Kristín H. sjúkraþjálfari, sem bera hitann og þungann að undirbúningnum. Þær fjórar eru einmitt á myndinni sem fylgir molunum í dag en í næstu viku birtum við nánari umfjöllun og myndasyrpu frá þessum skemmtilega degi.
Um leið og ég þakka öllum fyrir að gefa sér tíma til að taka þátt í deginum vil ég þakka öllum fyrirlesurum (og rannsóknarteymum þeirra) sérstaklega fyrir sitt framlag um leið og ég færi Mörtu og Vísindaráðinu sérstakar þakkir fyrir sitt framlag. Jafnframt þakka ég starfsfólki í eldhúsinu og iðnaðarmönnum og öðrum sem komu að framkvæmd dagsins innilega fyrir þeirra framlag.
Við getum strax farið að hlakka til næsta Vísindadags.

*Kalkúnaveisla kokkanna 23. nóvember 
Það er alltaf eitthvað skemmtilegt að gerast hér á Reykjalundi. Gaman er að segja frá því að fimmtudaginn 23. nóvember ætla kokkarnir okkar og starfsfólkið í eldhúsinu að bjóða okkur öllum, starfsfólki og sjúklingum, í kalkúnaveislu í hádeginu. Þar verður án efa mikið um dýrðir og fínt að taka smá æfingu fyrir jólahátíðina sem framundan er.
Það er alltaf gott og gaman að brjóta upp hefðirnar öðru hverju svo ég vona að við fjölmennum og njótum vel.

*Jóladagskrá Reykjalundar.
Að lokum vildi ég bara minna ykkur á að kynna ykkur jóladagskrá Reykjalundar sem framundan er enda aðeins 44 dagar til jóla. Jóladagskráin er öll komin í viðburðir á innri síðu okkar en þar er að finna jólamat, jólaball, jólafund og fleira. Hvet alla til að gera ráðstafanir tímanlega svo þið getið tekið þátt.

Að lokum vil ég minna á að úttekt um stöðu húsnæðismála Reykjalundar á að ljúka nú í nóvember samkvæmt verklýsingu. Eins og kynnt hefur verið munum við boða til kynningarfundar þegar skýrsla úttektarinnar er tilbúin og vonast ég til að tímaáætlun haldi þannig að slíkur fundur verði seinni hluta mánaðarins.

Njótið helgarinnar!
 
Bestu kveðjur,
Pétur

Til baka