03.11.2023

Föstudagsmolar forstjóra 3. nóvember 2023 - Gestahöfundur er Marta Guðjónsdóttir rannsóknastjóri.

Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,

Þá er enn einn föstudagurinn runninn upp og jólin nálgast óðfluga. Einn af föstu punktunum í tilverunni hér á Reykjalundi í aðdraganda aðventunnar er Vísindadagur Reykjalundar, sem fram fer í næstu viku – nánar tiltekið fimmtudaginn 9. nóvember. Þar vonumst við til að sjá sem flesta.
Það er því vel við hæfi að gestahöfundur okkar í dag sé Marta Guðjónsdóttir rannsóknastjóri en hún hefur einmitt veg og vanda af vísindadeginum ásamt vísindaráðinu okkar.

Að lokum langar mig að þakka starfsfóki iðjuþjálfunar, Hleinar og fleiri snillingum sem höfðu fyrir því að skreyta og smella sér í búninga í vikunni í tilefni af hrekkjavökunni. Alltaf skemmtilegt að brjóta upp hefðbundið daglegt starf, hafa gaman og fá aðra til að brosa og gleðjast.

Njótið helgarinnar!

Bestu kveðjur,
Pétur


Kæra samstarfsfólk á Reykjalundi,

Á fimmtudaginn í næstu viku verður árlegur vísindadagur á Reykjalundi í tuttugasta sinn. Dagurinn er mikilvæg uppskeruhátíð vísinda á Reykjalundi, þar sem starfsmenn og gestir setjast niður og hlusta á stutt erindi samstarfsfólks og nemenda þeirra um rannsóknir á Reykjalundi. Margir áheyrendanna hafa tekið þátt í rannsóknunum með beinum eða óbeinum hætti en einnig þegar svo er ekki eru raddir allra í umræðum eftir hvert erindi mikilvægar fyrir rannsakendur. Klínískir starfsmenn eru oftar en ekki með spurningar og pælingar sem ekki koma fram á öðrum vettvangi. Nýjar spurningar vakna sem þarf að skoða betur, kannski er komið efni í nýja rannsókn? Síðast en ekki síst getum við glaðst saman yfir vel unnu verki. Dagskrá vísindadags er á heimasíðu Reykjalundar: https://www.reykjalundur.is/visindi-og-kennsla/visindadagur/

Virðing fyrir mannhelgi.
Starfsmenn í heilbrigðisþjónustu, þar með taldir nemar og þeir sem ekki eru heilbrigðisstarfsmenn, eru bundnir þagnaskyldu í störfum sínum. Um vísindarannsóknir á heilbrigðissviði gilda ákveðin lög sem hafa það markmið að stuðla að vönduðum rannsóknum og tryggja hagsmuni þátttakenda. Í lögunum segir í II. kafla, 4. gr. „Vísindarannsóknir á heilbrigðissviði skulu byggja á virðingu fyrir mannhelgi þátttakenda. Mannréttindum skal ekki fórna fyrir hagsmuni vísinda og samfélags“. Þetta er afar mikilvægt veganesti okkur sem stundum rannsóknir á heilbrigðisstofnun eins og Reykjalundi enda er þessum lögum fylgt þar í hvívetna. Áður en rannsókn hefst þarf að liggja fyrir leyfi vísindasiðanefndar og umsögn frá Persónuvernd. Ábyrgðarmaður rannsóknar ber ábyrgð á framkvæmd rannsóknar (samkvæmt rannsóknaráætlun), öllum gögnum rannsóknar og allri vinnslu með þau. Rannsóknarstjóri Reykjalundar leiðbeinir rannsakendum með gerð umsókna til vísindasiðanefndar og hvernig standa megi sem best að öllum ofangreindum þáttum. Mikilvægt er að hafa í huga að þótt sjúklingur í meðferð á Reykjalundi hafi samþykkt þátttöku í rannsókn þá getur hann alltaf og án frekari skýringa dregið þátttöku sína til baka. Eins að þátttaka í rannsókn á aldrei að hafa áhrif á þá þjónustu og meðferð sem viðkomandi fær á Reykjalundi. Ég vil þakka öllum þeim fjölmörgu sjúklingum sem hafa samþykkt þátttöku í rannsóknum okkar á Reykjalundi fyrr og síðar fyrir þeirra framlag í að byggja upp aukna þekkingu í endurhæfingu.

Heilinn og útiþjálfun.
Fjölmargar rannsóknir hafa sýnt hversu mikilvæg hreyfing er fyrir vitræna starfsemi heilans en á síðustu árum hefur komið betur og betur í ljós að hreyfing utandyra í náttúrulegu umhverfi hefur ennþá meiri áhrif. Niðurstöður úr slíkri rannsókn birtust fyrr á árinu í vísindatímaritinu Nature. Þrjátíu háskólastúdentar fóru í 2 km langa göngu (tók að meðaltali 15 mínútur), annars vegar utan dyra og hins vegar innan dyra. Fyrir og eftir göngurnar var tekið af þeim heilarafrit á meðan þeir tóku sjónrænt vitrænt próf sem nefnist á ensku „visual oddball task“. Áreynslan innan dyra í þennan stutta tíma dugði ekki til að bæta útkomuna í prófinu en áreynslan utan dyra bætti árangurinn marktækt. Greinina má finna hér, https://www.nature.com/articles/s41598-022-26093-2.

Myndin sem fylgir er einmitt tekin upp á Reykjafelli, afbragðs heilaþjálfunarfelli í næsta nágrenni við Reykjalund.

Góðar stundir.
Dr. Marta Guðjónsdóttir,
rannsóknarstjóri á Reykjalundi.

Til baka