30.10.2023

Myndasyrpa - Lungnaendurhæfing á Reykjalundi í 40 ár.

Reykjalundur fagnar í ár 40 ára afmæli lungnaendurhæfingar, en lungnaendurhæfing hófst formlega hér árið 1983 . Þetta 40 ára ferli hefur verið afar farsælt, enda hefur Reykjalundur verið einstaklega heppinn með metnaðarfullt og vandað starfsfólk. Endurhæfing skiptir sköpum þegar kemur að líkamlegri og andlegri heilsu. Eftir alvarleg veikindi, slys, áföll eða aðgerð, getur endurhæfing hjálpað til við að ná aftur fótfestu í daglegu lífi.
Árlega njóta um 200 manns á öllum aldri lungnaendurhæfingar á Reykjalundi.
Tæplega 200 manns njóta lungnaendurhæfingar á Reykjalundi á ári hverju og eru flestir í 4-6 vikur. Lungnaendurhæfing er fyrir fólk á öllum aldri með langvinnan lungnasjúkdóm, skerta getu og minnkuð lífsgæði vegna mæði og þrekleysis. Endurhæfing er einnig fyrir lungnasjúklinga sem þurfa stuðning til að breyta skaðlegum lífsháttum, svo sem að losa sig við reykingar, bæta hreyfingu eða ná stjórn á mataræði. Markmið lungnaendurhæfingar eru til dæmis að auka þol og vöðvastyrk, rjúfa vítahring mæði og hreyfingarleysis, auka skilning á áhrifum lifnaðarhátta, ná betri stjórn á sjúkdómseinkennum og breyta lífsstíl varanlega.
Glæsilegt afmælismálþing.
Nýlega var afmælinu fagnað með formlegum hætti með áhugaverðu málþingi þar sem sagan var rifjuð upp, en einnig sagt frá nýjungum í starfinu. Jafnframt skemmtu söngvararnir Stefán Stefánsson og Davíð Ólafsson gestum. Meðfylgjandi myndir voru teknar á afmælismálþinginu en það var starfsfólk lungnateymis Reykjalundar sem hafði veg og vanda af málþinginu.
Steinunn heiðruð fyrir starf sitt.
Af mörgu góðu starfsfólki lungnaendurhæfingar á Reykjalundi má nefna frumkvöðlana Björn Magnússon lungnalækni og Steinunni Ólafsdóttur hjúkrunarfræðing sem bæði brunnu fyrir að stuðla að betra lífi fyrir fólk með langvinna lungnasjúkdóma. Steinunn var heiðruð sérstaklega fyrir starf sitt á afmælismálþinginu og afhenti  Pétur Magnússon, forstjóri Reykjalundar henni sérstaka viðurkenningu af því tilefni.
Steinunn hóf störf á Reykjalundi árið 1984 og starfaði hér í 20 ár, lengst af sem hjúkrunarstjóri á lungnadeild Reykjalundar. Hún var frumkvöðull innan endurhæfingarhjúkrunar og kom af stað þverfaglegri endurhæfingu í lungnateyminu, í nánu samstarfi við Björn Magnússon, þáverandi yfirlækni. Hún var ein af stofnfélögum Fagdeildar endurhæfingarhjúkrunarfræðinga og Fagdeildar lungnahjúkrunarfræðinga innan Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga. Steinunn var leiðtogi innan lungnateymisins alls og lagði sitt af mörkum til að efla þverfaglega lungnaendurhæfingu. Þar nutu sín vel hæfileikar hennar við skipulag og yfirsýn. Steinunn var alltaf fagleg og hvetjandi og lagði metnað sinn í að sjúklingar fengju góða þjónustu og að starfsfólkið fengi símenntun við hæfi.
Þakkir til allra.
Eins og áður segir hefur Reykjalundur verið einstaklega heppinn með metnaðarfullt og vandað starfsfólk. Auk Steinunnar og Björns Magnússonar, sem áður hafa verið nefnd, hafa margir fleiri lagt hönd á plóginn. Öllu þessu fólki vill Reykjalundur þakka af auðmýkt fyrir sitt merka framlag til sögu lungnaendurhæfingar hér á landi.

Til baka