25.10.2023

Reykjalundur vígir ramp númer 900

Í dag var rampur númer níuhundruð í átakinu „Römpum upp Ísland” vígður við hátíðlega athöfn á Reykjalundi í Mosfellsbæ. Þessi atburður markar tímamót í átakinu „Römpum upp Ísland”, sem stefnir að því að byggja 1.500 rampa fyrir 11. mars 2025 í þágu hreyfihamlaðra.

Margir rampar voru byggðir fyrir endurhæfingarmiðstöðina á Reykjalundi og hjúkrunarsambýlið Hlein sem staðsett er á lóð Reykjalundar. Það var einmitt Valgerður Karlsdóttir, íbúi á Hlein, sem fékk heiðurinn að því að klippa á rauða borðann, vígslunni á rampi númer níuhundruð til staðfestingar. Að sjálfsögðu við góðar undirtektir athafnagesta.

Reykjalundur er heilbrigðisstofnun í eigu SÍBS og hófst starfsemin árið 1945. Reykjalundur er í dag stærsta endurhæfingarstofnun landsins og þjónar öllu landinu. Þar fer fram alhliða endurhæfing sem miðar að bættum lífsgæðum, aukinni færni og sjálfsbjargargetu þeirra sem þangað leita.

Pétur Magnússon, forstjóri Reykjalundur  lýsti yfir mikilli ánægju sinni með átakið „Römpum upp Ísland.“ „Við erum mjög þakklát fyrir hlýhug í okkar garð, þetta hefur mjög mikið að segja og við metum þetta mikils, þó að aðgengið hafi verið gott þá er alltaf hægt að gera betur og við fögnum því!“ sagði Pétur.

Meðal gesta á athöfninni var einnig bæjarstjóri Mosfellsbæjar, Regína Ásvaldsdóttir: ,,Ég er gríðarlega ánægð með þessi skref sem verið er að taka í Reykjalundi í dag, en við erum að bæta aðgengi víða um Mosfellsbæ í samvinnu við Römpum upp Ísland“

Athafnamaðurinn Haraldur Þorleifsson stendur fyrir átakinu „Römpum upp Ísland" og var viðstaddur athöfnina. „Þegar ég byrjaði að nota hjólastól fyrir um 20 árum þá kom ég á Reykjalund. Fólkið sem tók á móti mér hjálpaði mér á ómetanlegan hátt í gegnum mjög erfitt tímabil. Það má alltaf gera gott betra og ég er ótrúlega þakklátur að við gátum hjálpað til að bæta aðgengi á þessum yndislega og fallega stað.”

Auk ræðumanna þá mætti tónlistarkonan Gréta Salóme á Reykjalund. Gréta söng og spilaði á fiðlu fyrir gesti athafnarinnar. Undir lok vígslunnar voru svo starfsmenn „Römpum upp Ísland”, sem stóðu að byggingu ramapana, heiðraðir af gestum athafnarinnar.

Átakið „Römpum upp Ísland” hefur nú reist 900 rampa, á undan áætlun, og var sá fyrsti tekinn í notkun í maí 2021. Upphaflega var stefnt að því að reisa þúsund rampa, en var sú ákvörðun svo tekin að reisa eitt þúsund og fimmhundruð. En að verkefninu koma margir styrkaraðilar, þeirra á meðal: Ueno, Össur, Deloitte, Brandenburg, Aton.JL, Lex lögmannsstofa, BM Vallá, Icelandair, Orkan, ÞG Verk, Sjálfsborg, ÖBÍ, Reykjavíkurborg og Innviðaráðuneytið.

Til baka