25.10.2023

#Ómissandi

Í gær, þriðjudaginn 24. október, var boðað kvennaverkfall þar sem mælst var til þess þennan dag að konur og kynsegin fólk þessa lands myndi leggja niður launuð og ólaunuð störf allan daginn og mótmæla sérstaklega vanmati á störfum kvenna, kynbundnu og kynferðislegu ofbeldi gegn konum og kvárum. Reykjalundur styður málstaðinn heilshugar og tilkynnti að ekki yrðu skert kjör starfsfólks þennan dag. Öryggi sjúklinga er í öndvegi og þrátt fyrir að lágmarksþjónusta væri í boði (meðal annars var verkfallsmönnun á legudeildinni) gátu ekki allir sem vildu yfirgefið vinnustaðinn.
Boðið var upp á málstofu um jafnrétti í heilbrigðiskerfinu í samkomusalnum og var það vel sótt. Þar voru velkomnir, bæði sjúklingar og starfsfólk sem vildu láta rödd sína heyrast eða bara koma og hlusta.
Í gær kom bersýnilega í ljós að konur eru ómissandi hluti af starfsemi Reykjalundar. Við berum mikla virðingu fyrir því mikilvæga, merkilega og #ómissandi starfi sem konur Reykjalundar leggja af mörkum.

Til baka