23.10.2023

Fræðsla um innleiðingu á ReDO® íhlutuninni.

Í síðustu viku voru þær Herdís og Karen iðjuþjálfar með fræðslu fyrir starfsfólk Reykjalundar um ReDO® námskeiðið og rannsóknina sem nú er í gangi hér á Reykjalundi. ReDO® snýst um að bæta lífsgæði fólks og eru þátttakendur í rannsókninni allir skjólstæðingar á Reykjalundi. Þeir sem veljast inn í ReDO® þurfa að hafa vilja til að breyta sinni rútínu til að ná betra jafnvægi í daglegu lífi. Námskeiðið fer fram í 6-8 manna hópum á 16 vikna tímabili. Veitt er fræðsla og verkfæri til breytinga í daglegu lífi og þátttakendur setja sér markmið sem er fylgt eftir í gegnum námskeiðið. Rannsóknin gengur út á að kanna hvort ReDO® henti í íslensku samfélagi og að meta árangur þess.
Meðfylgjandi mynd var tekin í síðustu viku eftir vel heppnaða og fjölsótta fræðslu en þetta eru frá vinstri Sirrý, Herdís, Erica og Karen iðjuþjálfar sem saman gegna lykilhlutverki í ReDO® rannsókninni hér á Reykjalundi. Með þeim í rannsóknarhópnum eru svo Hildur læknir og Marta rannsóknarstjóri.
Sannarlega spennandi verkefni sem áhugavert var að fræðast um en frekari upplýsingar má finna hér: https://www.reykjalundur.is/fraedsla/namskeid/redo/

Til baka