20.10.2023

Starfsemin á Reykjalundi 24. október.

Þriðjudaginn 24. október hefur verið boðað kvennaverkfall þar sem mælst er til þess þennan dag að konur og kynsegin fólk þessa lands leggi niður launuð og ólaunuð störf allan daginn og mótmæli sérstaklega vanmati á störfum kvenna, kynbundnu og kynferðislegu ofbeldi gegn konum og kvárum. Ljóst er að margir vinnustaðir loka þennan dag eða verða með mjög takmarkaða starfsemi. Víða í heilbrigðis- og velferðarþjónustu gengur það hins vegar ekki og þurfa einhverjir aðilar að vera við vinnu.

Reykjalundur styður málstaðinn heilshugar og munum við ekki skerða kjör starfsfólks þennan dag. Hins vegar þurfum við að bera virðingu fyrir þeim sjúklingum sem við sinnum og gera allt sem við getum í þeirra þágu.
Vegna þessa verður Reykjalundur opinn þriðjudaginn 24. október og meðferðarstarf fyrir sjúklinga í boði. Hins vegar má öllum vera ljóst að verkfallið hefur mikil áhrif á starfsemina þar sem mikill meiri hluti starfsmanna tilheyrir þeim hópi sem hvattur er til að leggja niður störf.

Sjúklingum býðst að mæta til meðferðar samkvæmt stundatöflu dagsins þó gera megi ráð fyrir að verulegir hnökrar verði á skipulaginu. Þennan dag eru sjúklingar beðnir um að koma í móttöku í aðalanddyri í upphafi dags til að láta vita um komu sína en ekki á stöðvar meðferðarteyma eins og venja er. Boðið verður upp á hádegismat í matsal og meðferðardagskrá fer eftir stundatöflu hvers og eins. Miðgarður verður starfræktur samkvæmt verkfallsmönnun.

Við viljum benda á málstofu um Jafnrétti í heilbrigðiskerfinu sem fram fer á tveimur mismunandi tímum í samkomusal Reykjalundar - kl 9:30 annars vegar og 11:00 hins vegar. Það eru þær Árdís Björk Ármannsdóttir, framkvæmdastjóri lækninga og Ólöf Árnadóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar sem leiða málstofuna. Þar er sjúklingum og starfsfólki af öllum kynjum velkomið að mæta og láta rödd sína heyrast eða bara koma og hlusta.

Að lokum biðjum við alla um að sýna breyttu fyrirkomulagi þennan dag skilning og þolinmæði enda berum við mikla virðingu fyrir því mikilvæga, merkilega og ómissandi starfi sem konur Reykjalundar leggja að mörkum.

Til baka