13.10.2023

Föstudagsmolar forstjóra 13. október 2023 - Gestahöfundur er Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri.

Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,

Mér koma föstudagsmolar þessa vikuna sem eru skemmtileg hugvekja eftir gestahöfundinn Regínu Ásvaldsdóttur, bæjarstjóra Mosfellsbæjar og fyrrverandi stjórnarmann Reykjalundar endurhæfingar ehf. 
Góða og gleðilega helgi!
 
Bestu kveðjur,
Pétur



Föstudagsmolar 13. október 2023.

Kæru starfsmenn og stjórnendur á Reykjalundi,

Ég lofaði Pétri forstjóra Reykjalundar fyrir margt löngu að skrifa gestapistil í október. ,, Ekkert mál” sagði ég, enda kom beiðnin að mig minnir í janúar og ég var þá í stjórn Reykjalundar. Svo leið tíminn á ógnarhraða, eins og alltaf og allt í einu er komið að þessu. 

Það var afar dýrmæt reynsla að sitja í stjórn Reykjalundar þetta ár sem ég tók þátt en ég tók ákvörðun í vor að gefa ekki kost á mér áfram, meðal annars sökum anna í starfi mínu sem bæjarstjóri. Það var gott að fá innsýn í metnaðarfulla og fjölbreytta starfsemi þessa mikilvæga vinnustaðar í Mosfellsbæ. Stór hluti af stjórnarstarfinu fór vissulega í að ræða rekstur Reykjalundar sem er verðugt og mjög brýnt verkefni enda hefur stofnuninni verið sniðinn þröngur stakkur, sérstaklega þegar kemur að húsnæðismálum. Fagleg málefni komu takmarkað á borð stjórnar en við lögðum línur varðandi stefnumótun, sem fór síðan fram í haust með virkri þátttöku starfsmanna og annarra hagsmunaaðila. Það skilar sér vonandi í skýrri framtíðarsýn fyrir Reykjalund endurhæfingu. 

Mín fyrsta snerting við Reykjalund var þegar ég vann sem félagsmálastjóri á Sauðárkróki fyrir fjölmörgum árum. Það tengdist einstaklingi sem fékk starfsendurhæfingu á Reykjalundi og þvílík breyting á lífi viðkomandi! Ég hef svo fylgst með fleiri einstaklingum fara í gegnum meðferðir á Reykjalundi og alltaf séð breytingar til batnaðar. Í mínum huga hefur árangurinn verið sambland af frábæru fagfólki, teymisvinnu og dásamlegu umhverfi en það er leitun að fallegri umgjörð í kringum starfsemi sem þessa.  

Ég leitaði síðan í smiðju Reykjalunds þegar ég var ráðin fyrsti stjórnandi Miðgarðs sem var fjölskylduþjónusta í Grafarvogi. Markmiðið með stofnun Miðgarðs var að veita börnum og fjölskyldum þverfaglega þjónustu og þá þurfti að byggja upp teymi með mismunandi fagfólki. Ég leitaði víða fanga að fyrirmyndum, innanlands og erlendis og sá fljótt að Reykjalundur hafði forystu í þessum efnum hér á landi. Það er nefnilega hægara um að tala en í að komast þegar kemur að ólíkum fagstéttum sem eiga að vinna saman að meðferð eða ráðgjöf við einstaklinga, hvort sem er í velferðarkerfinu eða heilbrigðiskerfinu. Við lærum ákveðin fræði í háskólum og síðan göngum við oftast inn í ríkjandi hefðir á vinnustöðum og lærum verklag af kollegum okkar. Þannig erfist ákveðið vinnulag mann fram að manni og það er fátt snúnara en að fá fólk til að breyta áralöngum hefðum. Til þess að teymisvinna skili árangri þá þarf sameiginlega sýn á markmið með meðferðinni eða ráðgjöfinni, skýra verkaskiptingu en líka traust og sálfræðilegt öryggi. Reykjalundur hefur á að skipa mjög fjölbreyttum fagstéttum s.s. félagsráðgjöfum, hjúkrunarfræðingum, heilsuþjálfurum, iðjuþjálfum, læknum, næringarfræðingum, sálfræðingum, sjúkraliðum, sjúkraþjálfurum og talmeinafræðingum sem starfa í teymum. Það eru mikil sóknarfæri hjá starfsfólki Reykjalunds að miðla dýrmætri þekkingu og reynslu á teymisvinnunni sem hefur safnast upp hjá starfsfólki stofnunarinnar í gegnum árin. Það er þörf á slíkri nálgun víðar en í heilbrigðiskerfinu en ný farsældarlög, sem taka til dæmis til þjónustu við börn og unglinga bæði í velferðar, skóla og heilbrigðisþjónustunni, er þverfaglegt samstarf forsenda þjónustunnar. Og það vantar töluvert upp á að við séum komin þangað að geta veitt slíka þjónustu, því okkur vantar verkfærin, meðal annars þekkingu á öflugri teymisvinnu. 

Þetta var ekki beinlínis bæjarstjóralegur pistill en ég skrifa sjálf pistil vikulega sem birtist á heimasíðu Mosfellsbæjar www.mos.is sem fjallar um dagleg störf í stjórnsýslunni. 

Það er nefnilega svo auðvelt að fara á flug þegar kemur að Reykjalundi og þeim sóknarfærum sem liggja í þessari mikilvægu stofnun. 

Gangi ykkur sem allra best!

Regína Ásvaldsdóttir,
bæjarstjóri Mosfellsbæjar
 

Til baka