12.10.2023

Reykjalundur og Hlein gefa til Frískápsins í Mosó.

Síðastliðið vor var svokölluðum Frískáp (freedge) komið upp í Mosfellsbæ. Frískápur er deiliskápur þar sem fólk getur deilt neysluhæfum mat og spornað þannig við matarsóun með því að deila mat og gefa öðrum tækifæri til að nýta hann. Reykjalundur og hjúkrunarsambýlið Hlein, sem staðsett er á lóð Reykjalundar, hafa frá upphafi lagt sitt lóð á vogarskálina í þessu verkefni. Þrátt fyrir hagsýni í innkaupum og útsjónarsemi fellur alltaf eitthvað til á stórum heimilum og þá er um að gera að leyfa öðrum að njóta góðs af. Þær stöllur Ásdís Margrét Rafnsdóttir hjúkrunarfræðingur hér á Reykjalundi og Anný Lára Emilsdóttir framkvæmdastjóri Hleinar hafa haldið utan um verkefnið og fengið aðstoð frá fjölda samstarfsmanna, svo sem við að safna glerkrukkum fyrir súpur, útbúa heppilegar skammtastærðir og ferja matvælin. Rekstrarvörur ehf studdu verkefnið með því að útvega myndarlegan skammt af heppilegum ílátum sem og að bjóða upp á góð afsláttarkjör.
Fyrir þá sem vilja kynna sér betur starfsemi Frískápsins í Mosfellsbæ er bent á facebooksíðuna  Frískápur/Freedge í Mosfellsbæ | Facebook https://www.facebook.com/groups/1847834258893485 og á síðunni https://freedge.org/ er ýmis fróðleikur um þetta fyrirbæri.

Til baka